150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig vera að horfa hér á stóru myndina með frumvarpinu. Ég er ekki að leggja fram frumvarp fyrir hönd stórra hagsmunaaðila í þessu landi. Ég er að leggja fram frumvarp sem ráðherra samkeppnismála. Ég er sömuleiðis ráðherra neytendamála og ég er ráðherra nýsköpunarmála. Ég veit vel að talsmenn óstofnaðra fyrirtækja og tækifæra sem ekki eru komin fram geta ekki verið margir og það heyrist ekki þeim. Ég tek það hlutverk alvarlega að gera það sem ég get til þess að beita dómgreind minni við að horfa á þá stóru mynd. Það er ekki þannig að ég taki skipunum frá stærri aðilum.

Þessi endurskoðun felur í sér aukna skilvirkni. Hún felur í sér eðlilegar hækkanir á tölum sem hafa verið óbreyttar í mörg ár og að sjálfsögðu var haft samráð við eftirlitið. En það er ekki þannig að eftirlitið muni ekki hafa skoðun á þessu frumvarpi eins og það lítur út. Ég geri enga athugasemd við það, ekki frekar en áður. En þessar breytingar eru bæði í samræmi við það sem kemur sérstaklega fram sem aðgerð í samhengi við lífskjarasamninga. Frumvarpið er sömuleiðis byggt á vinnu sem hófst löngu fyrir lífskjarasamninga. Ég hef verið með þetta í ráðuneytinu, ég veit ekki í hve marga mánuði, örugglega viðvarandi í vinnu í eitt og hálft ár ef ekki meira. Ég stend a.m.k. við það frumvarp sem ég legg hér fram. Ég er búin að taka snúning á öllum þeim atriðum sem ég er að leggja til. Svo fer málið í þinglega meðferð og ég geri ráð fyrir því að það taki breytingum í þinglegri meðferð.