150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þetta er hið ágætasta mál sem ég er í prinsippinu sammála og tek undir með hv. þingmanni að mér þykir ekki ólíklegt að um það geti náðst ágæt samstaða hér á þingi. Það sem mig langar að fá frekari upplýsingar um lýtur að skipan stjórnarinnar. Það segir hér að skipa skuli stjórnarmenn sem eru sérfræðingar á sviði heilbrigðisvísinda og/eða á sviði rekstrar, fjármála og stefnumótunar eða hafi sérþekkingu á starfsemi og rekstri sjúkrahúsa. Þetta er skilið eftir töluvert opið.

Nú er það svo að við í velferðarnefnd erum með til umfjöllunar frumvarp um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem verið er að garfa ansi mikið í stjórnskipulagi Landspítalans. Þar er m.a. lagt til að lögð verði niður læknaráð og hjúkrunarráð og svokallað fagráð komi í staðinn og felld verði brott grein úr lögunum sem kveður á um að það séu yfirlæknar sérgreina eða deilda sem hafi faglega ábyrgð á þeirri læknisþjónustu sem veitt er. Verði þetta óbreytt að lögum erum við komin með aðstæður þar sem forstjóri hefur gríðarlegt vald í núverandi stöðu og þá er heldur ekki stjórn yfir. Þetta hugnast eiginlega engum þeirra sem veitt hafa umsagnir um málið, en það er önnur saga.

Ég velti fyrir mér af því tilefni og þegar þetta mál kemur upp hvort hv. þingmaður, sem er framsögumaður þessa ágæta máls, hafi velt því eitthvað upp að skilgreina eða festa niður hverjir sitji í þessari stjórn og það sé ljóst að það séu einhverjir sem beri skynbragð á rekstur og geti veitt aðhald og aðstoð þar og síðan aðrir sem beri ákveðna faglega ábyrgð og veiti forstjóra og starfsfólki spítalans eftir atvikum faglegt aðhald og aðstoð, (Forseti hringir.) hvort ekki sé mögulega þörf á því að hafa þetta ítarlegra útskýrt eða niðurnjörvað.