150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

heilbrigðisþjónusta.

597. mál
[19:04]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið og hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki ákveðnar skoðanir á því hvort þarna eigi fyrst og fremst að vera rekstrarlegt aðhald eða rekstrarleg stjórn eða fagleg stjórn. Þetta mál hefur vissulega verið til umræðu, þ.e. stjórn yfir spítalann, verið töluvert mikið í umræðunni undanfarið, og það er auðheyrt á fagfólki innan spítalanna að því hugnast það ekkert sérstaklega ef um er að ræða fagfólk í þessum greinum. Aðrir nálgast þetta út frá rekstrarlegu sjónarhorni og segja: Við erum stundum með forstjóra og stjórnendur þessarar stóru stofnunar sem veltir miklum fjármunum og ber mikla ábyrgð sem hafa ekki endilega þekkingu og reynslu á slíku. Bara svo að ég skilji hv. þingmann rétt sem leggur þetta mál fram, og ég sit sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd, spyr ég hvort það sé til þess að gera opið og bara eftir hendinni hvort það sé nákvæmlega niðurnjörvað hvernig þessi stjórn er skipuð og hverjir skipa í hana. Það sé fyrst og fremst að fá þessa stjórn yfir til að byrja með sem liggi að baki frekar en að það sé nákvæmlega niðurnjörvað hvernig hún sé skipuð og hverjir nákvæmlega skipi hana.