152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp í dag til að leita aðstoðar forseta við að leita aðstoðar innviðaráðherra. Ráðherrann hefur lítið látið fyrir sér fara undanfarið og af því gæti hlotist mikill skaði. Þannig háttar til að meiri hluti borgarstjórnar ætlar sér að böðlast áfram með mikla uppbyggingu í Skerjafirði sem fyrir liggur að muni hafa áhrif á hæfi Reykjavíkurflugvallar til að starfa sem slíkur. Ég hrósaði hæstv. ráðherra fyrir nokkru vegna orða hans þess efnis að ef rekstrarhæfi vallarins yrði mögulega raskað með fyrirhuguðum framkvæmdum þá væri nauðsynlegt að fresta þeim. Það var skynsamleg afstaða hjá ráðherra og í henni kom fram ákveðin festa. Í framhaldinu skrifaði innviðaráðuneytið Reykjavíkurborg bréf þann 2. mars síðastliðinn þar sem krafist var tryggingar fyrir því að framkvæmdir við flugvallarsvæðið hefðu ekki áhrif á þjónustugetu flugvallarins í innanlandsflugi líkt og hollenska loft- og geimferðastofnunin hafði þá varað við. Reykjavíkurborg svaraði innviðaráðuneytinu þann 12. apríl, 41 degi eftir að bréfið barst frá ráðuneytinu, eftir að hafa tvisvar óskað eftir fresti til að svara enda ekki einfalt að forma svar þegar málstaðurinn er jafn vondur og í þessu máli.

En hvað gerðist í millitíðinni, þ.e. frá því innviðaráðuneytið skrifaði bréf til Reykjavíkurborgar þann annan 2. mars þar til bréfinu var svarað með útúrsnúningum þann 12. apríl, eftir 41 dag? Þann 5. apríl, sjö dögum áður en Reykjavíkurborg svarar innviðaráðherra, skrifar embættismaður fyrir hönd skrifstofu borgarstjóra og borgarritara bréf til borgarráðs, sem sagt Dagur skrifar bréf til Dags, þar sem óskað var eftir heimild til að bjóða til sölu byggingarrétt í fyrsta áfanga Skerjafjarðar. Bréfið var tekið fyrir á fundi borgarráðs 7. apríl og samþykkt á sama fundi og þar með heimild til að úthluta umræddri lóð í Skerjafirði, undir hörðum andmælum áheyrnarfulltrúa Miðflokksins. Fimm dögum síðar er innviðaráðuneytinu svo svarað með útúrsnúningum.

Virðulegur forseti. Við þessa stöðu verður alls ekki unað og þrátt fyrir að hæstv. innviðaráðherra hafi komið sér í bobba fyrir nokkru síðan er ekki sanngjarnt að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni gjaldi fyrir fjarveru hans með lífi sínu. (Forseti hringir.) Ráðherrann verður að stíga inn í málið sem ráðherra flugmála og ráðherra skipulagsmála.