152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mikið er rætt um traust í samfélaginu þessa dagana eða öllu heldur skort á trausti. Eftir hrun hefur gengið erfiðlega að byggja upp traust í samfélaginu. Sala á hlut í Íslandsbanka hefur sýnt okkur hvað við erum á viðkvæmum stað þegar kemur að trausti. Því er útilokað annað en að farið sé yfir það hvernig þessari sölu var háttað, hvernig staðið var að hverju skrefi í ferlinu, og það er verið að gera. Við erum að rannsaka, við erum sem samfélag að ræða málið, við erum að bregðast við á öllum þeim sviðum sem þarf til. Það er ekki til þess fallið að efla traust samfélagsins á stjórnvöldum að umræðan sé óreiðukennd eða byggist á órökstuddum upphrópunum. Því hefur t.d. ítrekað verið haldið fram að stjórnarflokkarnir vilji ekki skipa rannsóknarnefnd. Það er ekki rétt. Þvert á móti hafa félagar mínir í þingflokki Vinstri grænna endurtekið lýst yfir vilja til að velta við öllum steinum.

Í þessu samhengi er rétt að árétta að í greinargerð með frumvarpi til laga um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„… skipun rannsóknarnefndar er úrræði sem ber einungis að nota ef einsýnt er að ekki er unnt að notast við hin hefðbundnu rannsóknarúrræði. Úrræðið er sérúrræði og mikilvægt að á það sé litið sem slíkt og að til þess sé ekki gripið nema nauðsynlegt sé.“

Það þýðir ekki að þegar aðrar og augljósari leiðir hafa verið tæmdar verði ekki farið í að skipa rannsóknarnefnd.

Er ég glöð með söluferlið og útkomuna? Nei, bara hreint ekki. Er ég tilbúin til þess að farið verði ofan í hvern krók og kima þessa máls? Já, það er ég, og í kjölfarið verði ákvarðanir teknar um hvernig betur megi standa að sölu ríkiseigna þannig að hafið sé yfir allan vafa og að almenningur geti treyst faglegu, gagnsæi og heiðarlegu ferli í þessu sem öðru sem stjórnvöld gera hverju sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)