152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Söluráðgjafar í bankasölu selja sjálfum sér hlut. Þeir fá sem sagt þóknun frá almenningi fyrir að kaupa eign almennings með afslætti til að græða. Stóru fjárfestarnir sem áttu að eiga bankann og styðja til lengri tíma reyndust líka vera smáfiskar í leit að skjótfengnum gróða. Rauðum dregli rennt út fyrir erlenda sjóði í báðum útboðum með þeim rökum að brýnt sé að fá erlent eignarhald. Þeir seldu í bæði skiptin með hraði til að leysa út vænan hagnað enda vill enginn læsast inni í krónuhagkerfi. Ríkisstjórnin segist hafa ákveðið örlög Bankasýslunnar á ríkisstjórnarfundi sem aldrei var haldinn. Mikilvægt stjórnarmálefni var afgreitt óformlega milli þriggja manna í trássi við skýr lög um Stjórnarráð Íslands. Verulegur vafi er uppi um hvort fjármálaráðherra hafi mátt samþykkja söluna sökum vanhæfis. Armslengdarsjónarmiðið ítrekað togað og teygt og tilgangur þess rangtúlkaður. Hið rétta er augljóst; armslengd á að tryggja fjarlægð en hún á ekki að fjarlægja pólitíska ábyrgð.

Bankasýslan hefur sjálf sagt orðrétt að framkvæmd útboðsins hafi farið fram eins og því var lýst af hálfu stofnunarinnar frá upphafi til loka í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru. Samt á bara að reka Bankasýsluna en ekki stjórnvöldin sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem tekin voru. Viðskiptaráðherra varaði forsætisráðherra og fjármálaráðherra við þessari útboðsleið og var sagt að fátt hefði komið á óvart við útkomuna. Viðskiptaráðherra sá allt fyrir, varaði samstarfsmenn við en almenning ekki. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra hlustuðu á viðvaranir en aðhöfðust ekkert. Allt þetta kallar á eins ítarlega rannsókn á öllu ferlinu og unnt er að setja í gang. Annað er ekki hægt að sætta sig við og það er dapurlegt að stjórnarþingmenn skuli ekki sjá ljósið í þessu.