152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega ómögulegur tímarammi sem við stöndum frammi fyrir og örugglega hægt að tína til margar ástæður fyrir því. Ég sé að ráðuneytið fær þetta ekki inn á sitt borð fyrr en í febrúarlok þannig að þetta hefur greinilega verið unnið nokkuð hratt. Nú er bara hálfur mánuður til kosninganna sem eru ákveðinn tímapunktur í þessu og svo hálfur mánuður til viðbótar þar til við þurfum að vera búin að klára þetta að fullu. En ég skil orð ráðherrans þá sem svo að þingið geti unnið hér í fullvissu þess að við höfum þar til eftir kosningar að gera þetta og við þurfum að gefa okkur þann tíma einmitt vegna þess hversu hratt þetta var unnið í ráðuneytinu, einmitt vegna þess hversu hratt við myndum þurfa að vinna þetta hér inni á þingi, vegna þess að það sem hér um ræðir er eitthvað sem má ekki fúska við. Við þurfum að geta treyst því að þessi lög verði 100%, þau verði upp á punkt og prik. Efnislega held ég að það sé engin andstaða við þetta eins og ráðherrann segir. Þetta snýst bara um að fresta framkvæmd sem ekki er tilbúin.