152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:23]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki svo að lög um farsældarþjónustu í þágu barna sé að seinka barnaverndarlögunum. Engu að síður er það svo að við erum að gera það stórar breytingar á öllu kerfinu í kringum börn að það er takmarkað sem stjórnkerfið, hvort sem er ríki eða sveitarfélög, getur lagt á sig við þær breytingar, ekki út frá peningalegu hliðinni heldur bara út frá fagþekkingu og öðru meðan líka þarf að sinna daglegum verkefnum. Ég held að við séum alveg að þrýsta á þetta þannig að við séum að ganga út á ystu nöf í því, en við megum ekki ganga lengra en það. Þess vegna er svo mikilvægt að hlusta þegar kallið kemur frá þeim sem eru að innleiða breytingarnar og vera tilbúin til þess að dansa þetta með þeim aðilum. En hvað varðar fjárhagslegu hliðina þegar kemur að farsældinni þá kom allt það fjármagn inn sem sveitarfélögin óskuðu eftir inn í farsældarlöggjöfina á sínum tíma og til innleiðingar á fyrsta fasa hennar. Það lá alltaf ljóst fyrir að úrræðin yrðu síðan í næsta kafla sem nú er í gangi og er að hefjast og mun liggja ofan á farsældarlöggjöfinni.