152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kynninguna á þessu frumvarpi sem lítur út fyrir að vera einfalt dagsetningarmál. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna þetta mál er að koma hérna inn núna í lok apríl þegar svona stutt er eftir. Við erum með þrjá daga eftir af þessari þingviku fyrir kosningar og alveg ljóst að málið er ansi brýnt. Þó að hæstv. ráðherra segi að það þurfi ekki að klára þetta fyrir kosningar þá átta ég mig ekki alveg á því hvers vegna þetta kæruleysi er.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra út í orð hans áðan þar sem hann segir, með leyfi forseta, „hef ég skipað sérstakan stýrihóp um innleiðingu breytinganna á barnaverndarlögum með fulltrúum frá mennta- og barnamálaráðuneyti, sveitarfélögunum og Barna- og fjölskyldustofu.“

Skipaði hæstv. ráðherra þennan hóp? Hvenær gerðist það? Ég finn hvergi nein merki um það. Ég er að velta fyrir mér hvort hann geti upplýst þingið um hverjir nákvæmlega sitja í þessum hópi og hversu lengi þau hafa verið að störfum.