152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:26]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir og segja það, af því þingmaðurinn sagði að ég legði ekki áherslu á að þetta yrði klárað fyrir sveitarstjórnarkosningar, að ég legg einmitt áherslu á að þetta verði klárað ef mögulegt er en hef fullan skilning á því ef þingið lítur öðruvísi á málin. Það er þingið sem stjórnar en ekki framkvæmdarvaldið. Þessu máli var útbýtt 1. apríl og var ítrekað á dagskrá fyrir páska. Ég lagði á það áherslu að það kæmist á dagskrá en það voru önnur mál sem voru mikið til umræðu hér og þess vegna komst það ekki á dagskrá. Þetta barst mér seinni part febrúar þannig að frumvarpið var komið inn hér mánuði síðar sem er ekkert óeðlilegur tími í málum eins og þessum sem þurfa að fara í yfirlestur í forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti. Það tók um mánuð að koma því hingað inn í þingið. Ég lagði alltaf á það áherslu að þetta mál færi sem fyrst á dagskrá og það var raunar á dagskrá oft og tíðum en varð ekki klárað.

Ég get komið upplýsingum til hv. þingmanns um alla þá stýrihópa og þær nefndir sem starfandi eru bæði við innleiðingu á þessum barnaverndarlagahluta (Gripið fram í.) og eins varðandi farsældarlöggjöfina. Ég skal koma þeim til hv. þingmanns. En það eru auðvitað búin að vera mjög þétt og góð samtöl á milli ráðuneyta varðandi innleiðingu á þessu allan tímann, við Samband íslenskra sveitarfélaga, Barna- og fjölskyldustofa hefur verið í miklu sambandi við sveitarfélögin. En ég skal koma upplýsingum til hv. þingmanns um dagsetningar á formlegum skipunum stýrihópa, hverjir eru í þeim og með hvaða hætti þessu samstarfi er háttað á milli ráðuneytisins og sveitarfélaganna. Ég efa það að í nokkru einasta máli, alla vega ekki í minni ráðherratíð, hafi verið haft jafn mikið samráð og samskipti við sveitarfélögin eins og einmitt í barnaverndarmálum og nýju farsældarlöggjöfinni.