152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[14:53]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það var nefnilega talað heilmikið um það að tíminn til innleiðingar væri of stuttur og gott ef við frestuðum ekki gildistímanum til áramóta síðustu. Það átti að taka gildi fyrr, ef mig minnir rétt. Alla vega var töluvert um þetta rætt. En við vorum auðvitað á sama tíma að vinna breytingar á barnaverndarlögum, breytingar á Barna- og fjölskyldustofu, Gæða- og eftirlitsstofnun, samþættingarfrumvarp, þannig að þetta var auðvitað alveg rosalega viðamikið starf sem einni nefnd var ætlað að klára á einum þingvetri, kosningavetri, eða hálfum þingvetri, ég man ekki hvenær þetta kom inn. Ég segi hér enn og aftur og vil flagga mikilvægi þess að þingmál lifi milli þinga af því að öll vinna sem fer í svona umfangsmiklar lagabreytingar fellur svolítið niður á milli þinga í staðinn fyrir að það sé bara hægt að halda áfram. Aftur er farið að mæla fyrir málinu í staðinn fyrir að halda bara áfram. En já, þetta var allt of lítill tími fyrir alla aðila.