152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:23]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir þessa umræðu og sömuleiðis forsætisráðherra fyrir að vera hér til svara. Það er mikilvægt þegar við förum inn í þessa umræðu að við horfum á stóru myndina og veltum fyrir okkur hver vegferðin var þegar lagt var af stað. Sett voru ákveðin markmið í upphafi og ég tel að flestum af þeim markmiðum hafi verið náð. En eftir stendur markmiðið sem snýr að trausti, gagnsæi og þeim upplýsingum sem almenningur vill hafa og við viljum sömuleiðis hafa til að horfa á, svo að sú atburðarás sem við eigum við núna endurtaki sig ekki. Því miður er það þannig að einhver brotalöm hefur verið á þessu ferli sem snýr að þessum þáttum; gagnsæi, upplýsingum og trausti. Þar af leiðandi erum við stödd í þeirri umræðu sem við erum í dag. Því er mikilvægt í því samhengi að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans rannsaki hlutina, velti við hverjum steini og farið verði ofan í saumana á þessum málum því að við getum ekki haldið áfram á þeirri vegferð að klára að selja Íslandsbanka — ég er svo sannarlega stuðningsmaður þess að selja Íslandsbanka — fyrr en við höfum velt við öllum steinum og allt er uppi á borðum varðandi þessa sölu.