152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég tel mikilvægt að við séum skýr þegar við tölum um veigamikil mál eins og það sem hér er til umfjöllunar, að við tölum af ábyrgð og skynsemi. Það tel ég okkur Vinstri græn hafa gert allar götur frá því að málið bar fyrst á góma. Það er ekki síst mikilvægt þegar umræðan er yfirgripsmikil og mörg sjónarmið á lofti. Hvað höfum við sagt? Jú, ítrekað höfum við talað um að velta við hverjum steini og það er enginn fyrirsláttur. Við viljum, eins og alþjóð öll, vita hvernig var staðið að þeim þáttum sölunnar sem hafa verið í deiglunni og við höfum sagt hana ekki hafa staðist væntingar.

Við höfum verið skýr í þeirri afstöðu okkar að við treystum Ríkisendurskoðun til að rannsaka málin, að við treystum á þær stofnanir sem falið er að fara með málin að lögum og við teljum það vera eðlilegan upphafspunkt slíkrar rannsóknar. Fjármálaeftirlit Seðlabankans, eins og við vitum, er að skoða tiltekna þætti sem snúa að framkvæmdinni hjá ráðgjöfum Bankasýslunnar sem það hefur jú heimild til að rannsaka.

Við höfum verið skýr í þeirri afstöðu að grípa til sérúrræða eins og að skipa rannsóknarnefnd teljum við tilefni til þess, og þingheimur, og ef rannsóknarheimildir ríkisendurskoðanda og Fjármálaeftirlitsins þrýtur áður en mögulegt er að gera upp málin.

Þá höfum við verið skýr í þeirri afstöðu okkar að selja ekki frekari hlut í Íslandsbanka fyrr en öll kurl eru komin til grafar. Okkur ber að ljúka rannsókn á söluferlinu og það er að sjálfsögðu ekkert annað en bæði sjálfsagt og eðlilegt og nú styttist í að Bankasýslan skili okkur skýrslu sem á að detta í hús bara á næstu mínútum.

Virðulegi forseti. Um þetta mál hefur verið allmikill hávaði og umræðan minnir um margt á íslenskt veðurfar; öfgakennt og síbreytilegt, skin og skúrir, sem er kannski ekki óeðlilegt enda um gríðarlega mikilvæga samfélagseign að ræða. Ég tek undir það sem sagt hefur verið, að traust og gagnsæi þarf að ríkja um sölu ríkiseigna og að sjálfsögðu er það okkar þingmanna allra og ríkisstjórnar að gera enn betur í þeim efnum.