152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.

[16:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er að einkavæða banka í annað sinn. Þar með er orðið jafnt milli flokkanna, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, 2:2:2. Auðvitað er oft ástæða til þess að selja ríkiseigur. Það kann að vera tilefni til þess og það kann sannarlega að vera tilefni til þess varðandi banka. En þá skiptir öllu máli hvernig það er gert. Nú hefur ríkisstjórnin brugðist við gagnrýni á aðferðina við þessa nýjustu einkavæðingu VG á bönkum með því að vísa á Bankasýsluna og maður heyrir hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hér hver á eftir öðrum og segja að þetta sé almennt jákvætt en það sé bara verst hvernig Bankasýslan hafi staðið að verki, það þurfi að rannsaka. Ég minnist þess ekki, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hafi á sínum tíma fyrst og fremst gagnrýnt þá aðila sem sáu um einkavæðingu bankanna fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í byrjun þessarar aldar. Þá var gagnrýnin á stjórnmálamennina, á þá sem tóku ákvarðanirnar. Nú er gagnrýni allri beint að þeim sem sáu um framkvæmdina fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Og þegar bent er á það að ríkisstjórnin hafi farið rangt með þegar hún sagði að hæstv. ráðherrar hefðu farið rangt með þegar þau sögðu að ríkisstjórnin hefði tekið ákvörðun um að bregðast við þessu með því að leggja niður Bankasýsluna þá benti hæstv. forsætisráðherra á það í gær að ríkisstjórnin væri ekki fjölskipað stjórnvald og að hæstv. fjármálaráðherra hefði komið að ákvörðuninni, eins og það leysti málið. En það vekur þá þessa spurningu, frú forseti: Með hvaða hætti kom hæstv. fjármálaráðherra að ákvörðuninni? Hver átti frumkvæði að þessari ákvörðunum um að bregðast við gagnrýni á einkavæðingu Íslandsbanka með því að leggja af Bankasýsluna?