152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að biðja forseta um að veita hv. fjárlaganefnd liðsinni. Nefndin hefur enn ekki fengið minnisblað frá Bankasýslunni þrátt fyrir að hafa fengið beiðni um það fyrir nærri þremur vikum eða svo og nú þarf forseti Alþingis að skerast í leikinn. Að auki vil ég vegna orða hæstv. forsætisráðherra — sem sagði í dag í ræðunni að ríkisendurskoðandi starfaði ekki í umboði framkvæmdarvaldsins heldur væri sjálfstæður í störfum sínum, sem er alveg rétt — vekja athygli á því að það er hæstv. fjármálaráðherra sem gaf Ríkisendurskoðun fyrirskipun um að hefja rannsókn þrátt fyrir að í lögum um Ríkisendurskoðun sé hvergi heimild fyrir hæstv. fjármálaráðherra til að krefjast slíkrar rannsóknar. Það er hvergi heimild til þess. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forseta hvort hún hyggist beita sér þar til að kanna hvort hæstv. ráðherra var þar sem þingmaður, en þá þarf hann að fá átta þingmenn með sér til að óska eftir því að Ríkisendurskoðun hefji slíka rannsókn. Ríkisendurskoðun getur auðvitað haft eigið frumkvæði, en Ríkisendurskoðun hefur með tilkynningu fallist á beiðni framkvæmdarvaldsins (Forseti hringir.) sem hæstv. forsætisráðherra sagði að kæmi ekkert að störfum Ríkisendurskoðunar. Bara svo þessu sé haldið til haga: (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðun er að rannsaka að beiðni hæstv. fjármálaráðherra.