152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:09]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil mótmæla því enn og aftur hvernig framkvæmdarvaldið gengur fram gagnvart Ríkisendurskoðun. Það er einfaldlega þannig að það er ekki gert ráð fyrir því í lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga að stjórnvöld óski eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á tilteknu málefni eða að stjórnvöld eigi með einhverjum hætti frumkvæði að slíkum athugunum. Það er bara mjög rík ástæða fyrir því að þetta er ekki í lögum um Ríkisendurskoðun. Það er nefnilega þannig að ríkisendurskoðandi er trúnaðarmaður Alþingis og hann fer í umboði Alþingis með eftirlit með fjárreiðum stjórnvalda. Það samrýmist mjög illa þessu hlutverki að stjórnvöld sjálf, hinir eftirlitsskyldu aðilar, séu að hlutast til um það með hvaða hætti þinglegt eftirlit fer fram, hvort það fari fram af hálfu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hjá Ríkisendurskoðun eða hjá umboðsmanni Alþingis. Þetta er verkefni Alþingis, ekki framkvæmdarvaldsins.