152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:15]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Mér fannst fyrst áhugavert, þá broslegt og síðan tragískt að hlusta á stjórnarþingmenn hérna í gærkvöldi tala eilíflega um það að við treystum ekki Fjármálaeftirlitinu og við treystum ekki Ríkisendurskoðun. Staðreyndin er sú að við treystum ekki ríkisstjórninni. Við treystum ekki ríkisstjórninni fyrir sölu á ríkiseignum. Ríkisstjórnin treystir sér að vísu heldur ekki sjálf fyrir frekari sölu á ríkiseignum. Það blasir við með páskatilkynningu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst þetta skipta máli, þetta tungutak að segja alltaf hann en ekki hinn og einhvern veginn reyna að afvegaleiða, alveg eins og ríkisstjórnin er að gera með Bankasýsluna. Hún var auðvitað krossfest yfir páskahátíðina fyrir það sem ráðherrarnir bera ábyrgð á. En ég velti því líka fyrir mér hvaða áhrif það hefur, og ég held að ríkisstjórnin þurfi að ræða það, á fjármálaáætlun hennar núna þegar ríkisstjórnin er orðin lens með frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka. Það eru verulegar upphæðir, upphæðir af þeirri stærðargráðu að þær ógna fjármálaáætlun.