152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil mjög gjarnan halda aftur til haga hér ákveðnu samhengi sem skiptir öllu máli þegar við erum að tala saman. Ríkisendurskoðun skoðaði einkavæðingu Búnaðarbankans 2003 og 2006 og það kom ekkert út úr því. Síðan er stofnuð rannsóknarnefnd Alþingis sem mokar svoleiðis upp skítnum og drullunni eins og við þekkjum úr þeirri einkavæðingu og þar með liggur tímalínan fyrir, hvað það var sem gerðist í þeirri einkavæðingu. Ríkisendurskoðandi er síðan spurður í framhaldinu hvort hann standi við heilbrigðisvottorðið sem hann gaf einkavæðingunni. Hann sagðist standa við sínar rannsóknir en benti á að á grundvelli víðtækra rannsóknarheimilda hafi rannsóknarnefnd getað sýnt fram á að gögn þau sem Ríkisendurskoðun aflaði sér í kjölfarið hafi verið lögð fram í blekkingarskyni. Þetta gat ríkisendurskoðandi ekki gert sjálfur. Þetta gat rannsóknarnefndin gert. Ríkisendurskoðun vinnur út frá því að færa rekstur og starfsemi ríkisins almennt til betra horfs en það er minna horft til þess að líta til hinnar pólitísku ábyrgðar. (Forseti hringir.) Við getum alveg litið svo á að þessi bankasala sé í þremur lögum; það er pólitíska ábyrgðin, það er Bankasýslan og það eru söluráðgjafarnir. (Forseti hringir.) Það er verið að skoða söluráðgjafana og það er verið að skoða Bankasýsluna en pólitíska ábyrgðin (Forseti hringir.) er einhverra hluta vegna látin liggja á milli hluta í þessu.