152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:27]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Mér finnst rétt og skylt að benda á þá staðreynd að það er algengt að ráðherrar eða ráðuneyti óski eftir úttekt ríkisendurskoðanda á ákveðnum málum. Það er nú þegar til meðferðar meira að segja eitt slíkt mál sem á uppruna sinn í beiðni frá ráðherra í þingnefnd og það er verið að vinna nú þegar af ríkisendurskoðanda að máli að beiðni ráðuneytis. Ég hygg að það sé hæstv. matvælaráðherra um fiskeldi. Við skulum hafa það á hreinu, þannig að það liggi fyrir. Það er ekki óeðlilegt að ráðherra eða ráðuneyti biðji um úttektir á einhverjum ákveðnum þáttum eða jafnvel heilum stofnunum. Þær úttektir eru unnar samkvæmt ákvörðun ríkisendurskoðanda og alltaf (Forseti hringir.) á hans forsendum. Að gefa það í skyn (Forseti hringir.) að ríkisendurskoðandi vinni úttekt á forsendum ráðherra er rangt (Forseti hringir.) og verið að kasta ryki í augu almennings með slíkum málflutningi.