152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:37]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Auðvitað á að skipa rannsóknarnefnd og það strax. Ef stjórnarliðar ætla að standa við þær fullyrðingar að velta við öllum steinum og fara í öll skúmaskot og allar sprungur til að finna það sem er að í þessu máli ættu þeir að fagna rannsóknarnefndinni. Nú er ríkisendurskoðandi að fara að skoða málið. Hann er skipaður af ríkisstjórninni, hann er ekki á vegum Alþingis, og hann er að sækja um að verða ríkisendurskoðandi. Hvernig í ósköpunum dettur ykkur í hug að maður sem er að sækja um að verða ríkisendurskoðandi til ríkisstjórnarinnar og Alþingis muni vinna öðruvísi en að reyna að „settla“ málin og gera eiginlega ekkert úr þessu? Ég myndi segja að það væri verið að setja hann í ómögulegu stöðu. Ríkisstjórnin er að setja þennan mann í ómögulega stöðu. Þess vegna eigum við að koma á rannsóknarnefnd núna strax. Byrjum á því. Það ætti ekki að pirra einn eða neinn. Það ætti bara að vera sjálfsagður hlutur. (Forseti hringir.) Þá erum við að gera allt sem við getum.