152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Fólk sem ég ræði við úti í þjóðfélaginu er foxillt. Það er bara alveg brjálað yfir þessari vitleysu sem þessi bankasala hefur verið. Í síðustu viku hélt ég á tveimur heftum, rannsóknarnefnd um fjárfestingar lífeyrissjóða. Ég hugsaði með mér: Erum við virkilega komin á þann stað að við þurfum að fara út í svona hluti aftur? Hvað er að okkur? Getum við ekkert lært af sögunni? Ég held að eina leiðin sé sú að hætta þessu sem við erum að gera, að reyna að fá ríkisendurskoðanda og stilla honum upp við vegg, að hann eigi að fara í einhvern hvítþvott, eða Bankasýslan, að þetta sé henni að kenna. Þetta er hvorugt þannig. Málið er ósköp einfalt: Ríkisstjórnin klúðraði þessu máli algjörlega, á eigin vegum. Kannski væri besta lausnin sú að ríkisstjórnin færi frá. Þá myndu einhverjir aðrir geta tekið þetta, ef ríkisstjórnin treystir ekki rannsóknarnefnd til að sjá um þessa hluti.