152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[17:48]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það slitnar aðeins á milli en við reynum að halda þeim takti sem kominn var í umræðuna fyrir sérstaka umræðu hv. þm. Halldóru Mogensen við forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, áðan um bankasöluna. Frumvarpið sem hér er til umræðu er ekki efnislega mikið enda markmiðið að fresta gildistöku á þeim ákvæðum sem þar eru tilgreind. — Ég geri svo sem engar sérstakar athugasemdir, en klukkan gæti verið í ólagi, svona ef forseti vill einhvern tímann losna við mig úr pontu. (Menntmrh.: … aldrei losna við þig úr pontu.) Nei, ég veit að hæstv. ráðherra vill aldrei losna við mig úr pontu, þakka þér fyrir.

Það eru nokkur atriði sem mér finnst nauðsynlegt að við veltum upp núna þegar þetta mál opnast, ef svo má segja, vegna þessarar frestunar sem er til komin vegna beiðni hagaðila sem eru í þeirri stöðu að framkvæma þá þætti sem hér eru undir. Ég veitti því athygli og kannski beini því til þingsins núna að ræður frá því þetta mál var flutt og samþykkt hér í fyrra á síðasta þingi eru ekki orðnar aðgengilegar á netinu. Ég segi þetta af því ég ætlaði að rifja upp ákveðin orðaskipti en varð ekki kápan úr því klæðinu í ljósi þess að það voru bara hljóðskrár aðgengilegar úr umræðunni, textaskrárnar voru ekki komnar inn. Ég beini því til hæstv. forseta að hlutast til um að texti umræðnanna frá því í fyrra verði okkur þingmönnum aðgengilegur. Sérstaklega skiptir það máli fyrir þá nefndarmenn sem fá málið til umfjöllunar því að auðvitað hlýtur að koma upp sú staða að það verði kallað eftir umsögnum og fleira slíkt og þá gætu þær fjallað um örlítið víðara svið heldur en akkúrat það þrönga sem er sett fram í þessu breytingarfrumvarpi.

Málið var flutt í fyrra og ég er hér með greinargerð frumvarpsins til breytinga á barnaverndarlögum frá liðnu þingi. Þar segir í 6. lið, um mat á áhrifum, eftir að málið hefur verið rakið:

„Í frumvarpinu er einnig fjallað um gerð gagnagrunna og stafrænna lausna í barnavernd en verkefnið er fjármagnað í fjárlögum 2021.“

Það væri auðvitað áhugavert ef fram kæmu upplýsingar um það hvar þessi vinna stendur. Það bárust umsagnir þar sem lýst var áhyggjum af því að þetta mál væri lengra inni í framtíðinni heldur en kannski látið var í veðri vaka í þessum 6. lið greinargerðarinnar. Hæstv. ráðherra, af því að hann fylgist með umræðunni, kemur kannski inn á þetta á eftir ef hann á hér lokaræðu að umræðunni lokinni. Hvernig stendur sú vinna er snýr að þessum stafrænum lausnum upp á þessa samþættingu sem hér er um fjallað? Ég man eftir umsögn sem lýsti þessu sem einhvers lags kvöð og væntanlega á þau sveitarfélög sem nytu greiðslna úr tilteknum sjóðum, að það yrði skylda að setja gögnin í gegnum þetta tiltekna app til að eiga möguleika á að njóta greiðslna út úr því kerfi sem þar var um fjallað.

Síðan segir í sömu málsgrein í greinargerðinni frá því í fyrra, með leyfi forseta:

„Enn fremur er gert ráð fyrir að samþætting þjónustu í þágu farsældar barna, en frumvarp þess efnis er nú í meðförum Alþingis […] verði einnig innleitt í barnavernd. Þær breytingar eru að fullu fjármagnaðar bæði hjá ríkissjóði og hjá sveitarfélögum.“

Þetta er punkturinn sem ég ætlaði að koma inn á. Það urðu töluverðar umræður um þetta atriði í fyrra og það var nú það sem ég ætlaði mér að rifja upp hér á vef Alþingis en varð lítt ágengt hér fyrr í dag. Ég fyrir mitt leyti hafði miklar áhyggjur af því að þetta væri ekki raunin, mér sýndist það nú bara á fyrirliggjandi fjármálaáætlun, á fjárlögunum eins og þau lágu og raunar á fyrirvara í greinargerð eins málsins í þessum pakka sem þarna lá svona samhangandi fyrir, að fjármögnunin væri ekki alveg eins klár og menn vildu vera láta og hæstv. ráðherra taldi fullvíst. (Menntmrh.: Er enn.) En mér þótti það ekki nógu sannfærandi þá. Hæstv. ráðherra segir hér að svo sé enn og ég bara virði það og met.

En þá er aftur ástæða til að horfa á með hvaða hætti þeir aðilar sem vinna innan þessa ramma hafa verið að tjá sig um þessi mál. Það var nú bara með aðstoð Google að upp kom strax runa mála, fréttagreina og statusa ýmsa þar sem aðilar, mikið til sveitarstjórnarmenn og sérfræðingar sem vinna í þessu umhverfi, lýsa þætti sveitarfélaganna í þessu verkefni öllu — sem er verkefni sem ég held að allir þingmenn séu sammála um að sé eitt af þeim mikilvægustu sem við höndlum með, málefni barna, þannig að það er enginn að tala á þeim nótum að það eigi eitthvað að draga úr þeim bótum, því bætta umhverfi sem við getum búið börnum þessa samfélags. En það er sama hvert litið er. Sveitarstjórnarmenn segja t.d., og nú vísa ég í grein sem birtist í Vísi 28. mars síðastliðinn með fyrirsögninni, með leyfi forseta: „Er sanngjarnt að þingmenn og ráðherra slái sig til riddara á kostnað sveitarfélaga?“ Þarna er farið í þetta tiltekna safn fjögurra frumvarpa sem voru samþykkt hér heildstætt í fyrra, sem sagt lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, lög um Barna- og fjölskyldustofu, lög um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og breytingar á lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Það er formaður bæjarráðs í Sveitarfélaginu Árborg, Tómas Ellert Tómasson, fulltrúi Miðflokksins þar í bæ, sem skrifar hér prýðisgóða grein sem einmitt dregur fram hversu mikill kostnaður hafi lent á sveitarfélögum, umfram það sem miðað var við. Það má ekki gleyma því að í greinargerð málsins segir, með leyfi forseta: „Þær breytingar eru að fullu fjármagnaðar bæði hjá ríkissjóði og hjá sveitarfélögum.“ Það virðist mikið vanta upp á hjá sveitarfélögunum. Önnur frétt, með leyfi forseta: „Úrræðaleysi í þjónustu við börn með alvarlegan geðvanda.“ Regína Ásvaldsdóttir, sem er sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, lýsir því í grein 26. ágúst 2021, skömmu eftir að þetta lagasafn var samþykkt, að fjárveitingar til málefna barna með alvarlegan geð- og þroskavanda séu vægt til orða tekið af mjög af skornum skammti.

Þegar við skoðum með hvaða hætti þessum málum hefur undið fram þá er ekki að sjá að þessi lagapakki sem var samþykktur í júní í fyrra sé, alla vega ekki enn sem komið er og með þeim yfirlýsingum um fulla fjármögnun sem komu fram, að skila þessum hópum sérstaklega bættri stöðu. Og þó að ég sé ekki með þann texta með mér hér uppi þá minnir mig að það sé sérstakt markmið í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að gera biðlista miðlæga. Það er ekkert sérstakt markmið að því er virðist að stytta þá eða eyða þeim heldur á að gera þá miðlæga. Það þyrfti nú ekki annað en að labba inn í einhvern framhaldsskóla borgarinnar að morgni til og þá væri einhver verðandi stúdent búinn að leysa það um hádegisbil að gera þessa biðlista bæjarins miðlæga. En áherslan á að stytta þá og komast fyrir vandamálið og vinna með forvirkum hætti virðist vera miklu minni, því miður. Auðvitað hlýtur það að vera markmiðið með þeim lögum sem voru samþykkt í fyrra, þessum pakka. En manni sýnist á öllu að ráðherranum eða hæstv. ríkisstjórninni hafi dálítið hlaupið kapp í kinn. Auðvitað vissi hæstv. ráðherra ekki að hann héldi ráðherraembættinu milli kjörtímabila þannig að það er hægt að hafa ákveðinn pólitískan skilning á því. En það virðist vera að mönnum hafi hlaupið kapp í kinn og það þótt algerlega nauðsynlegt að klára þessi mál síðastliðið vor til að hægt væri að flagga þeim í kosningum að hausti. En útfærslan, fjármögnunin, innleiðingin virðist hafa því miður einhvern veginn verið víkjandi hvað áherslu á mikilvægi varðar.

Ég held að þetta sé þáttur sem væri æskilegt að hv. velferðarnefnd, sem ég geri ráð fyrir að fái málið til umfjöllunar, taki snöggan snúning á. Ég gef mér að nefndin kalli eftir umsögnum um þessa breytingu og þá væri skynsamlegt að setja smá kjöt á beinin því það gefur okkur þingmönnum líka betri grunn til að vinna málið áfram. Það kom fram í umræðunni um þetta mál áður en hlé var gert á henni að þingmenn sem hafa býsna góða innsýn í þessi mál og hafa óskað eftir setu í nefnd ráðherra um barnamál telja að þörf sé mikillar endurskoðunar og í raun strax. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á það á þeim nótum, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að hann teldi skynsamlegt að fresta að fullu allri þessari innleiðingu þar til ákveðnar lagfæringar hefðu verið gerðar. Ef lagapakki eins og þessi, þetta knippi fjögurra laga sem var uppfært hér síðastliðið vor, gefur strax þá stöðu að menn með mikla þekkingu eða a.m.k. ágætan skilning á umhverfinu séu farnir að kalla eftir heildarendurskoðun þá virðast menn hafa farið dálítið fram úr sér. Ég hvet hv. velferðarnefnd til að skoða málið, taka sér þann tíma sem þarf til að skoða það. Því er haldið fram að það þurfi að klára þetta helst innan þessarar viku til að einhver bragur sé á. En staðreyndin er sú að sveitarstjórnarkosningar verða 14. maí í þetta skiptið og nýjar sveitarstjórnir landið um kring taka við 28. maí þannig að það er rúmur mánuður sem við höfum og ekkert því til fyrirstöðu að velferðarnefnd kalli eftir umsögnum, fái þær til sín, hagaðilar geta skrifað þær í því hléi sem er fram undan núna vegna sveitarstjórnarkosninganna, og síðan verði þetta mál klárað hratt og vel strax og þing kemur saman að sveitarstjórnarkosningum afloknum.

Þetta er það sem ég vildi segja um málið á þessu stigi en ég vil halda því til haga að manni sýnist allt benda til þess að það hafi verið gengið fram með meira kappi en forsjá þegar málin voru keyrð í gegn og kláruð síðasta vor. Við eigum að nýta þetta tækifæri þegar málið er opnað til þess a.m.k. að safna saman gögnum til að auðvelda annaðhvort hæstv. ráðherra eða þingmannanefndinni sem hann virðist ætla að forma aftur þá vinnu sem nauðsynleg er til þess að við getum öll unnið til farsældar fyrir börn.