152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[18:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En ég verð auðvitað að gagnrýna þetta og taka upp hanskann fyrir sveitarstjórnarmenn á landsvísu ef þetta eru trakteringar ráðherra, að hlutir sem komi frá fulltrúum tiltekins flokks séu bull af því að viðkomandi sveitarstjórnarfulltrúi er í öðrum flokki en flokki ráðherra. Þetta eru einhverjir fordómar sem ég man ekki eftir að hafa orðið var við hér úr pontu Alþingis og eru hæstv. ráðherra til skammar. En að því sögðu þá er það auðvitað þannig að það hreinlega jaðrar við ósvífni að hæstv. ráðherra komi hingað upp í pontu og haldi því fram að farsældarpakkinn hafi verið fjármagnaður að fullu alla tíð þegar hæstv. ráðherra sagði sjálfur að það þyrfti ekki að útskýra þetta með hefðbundnum hætti, það væri svo mikil arðsemi í þessari snemmtæku íhlutun. Ég geri engar athugasemdir við að hún sé mikil, en það er bara ekki þannig sem þetta er reiknað. Það að hæstv. ráðherra komi upp núna, frussi einhvern veginn út um samanbitna kjálkana svívirðingum í garð sveitarstjórnarmanna og þess flokks sem ég er fulltrúi fyrir þykir mér heldur óviðurkvæmilegt en hæstv. ráðherra verður að eiga það við sig. En það að hæstv. ráðherra, að því er virðist einn stjórnmálamanna á Íslandi, telji farsældarpakkann fullfjármagnaðan er bara áhugavert. Það er ekkert nýtt innlegg í málið, því miður. Mér hefði þótt meiri bragur á því að ráðherrann kæmi hér og segði: Ég ætlaði mér að ná svona langt en ég bara náði ekki lengra en raunin varð. Það að berja hausnum við steininn og halda því fram að hlutir séu með allt öðrum hætti en þeir eru — það er ekki gott.