152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Sérstaklega þar sem er verið að ræða að umdæmisráðin eigi ekki að ná yfir 6.000 íbúa heldur eigi að fækka svæðunum þannig að þau nái yfir fleiri, það er verið að breyta því hérna, þá myndum við sjá fram á fækkun. Það eru ekki nærri því jafn margir aðilar sem koma að þessu og eru núna í barnaverndarnefndunum. Það leiðir óhjákvæmilega til kostnaðarlækkunar, myndi maður halda alla vega. Þrátt fyrir að það séu ekki miklir peningar þá eru það samt peningar. Þetta er eitthvert margfeldi af fjölda fólks per árslaun o.s.frv., ég myndi giska á að þetta séu jafnvel einhverjir tugir milljóna fyrir sveitarfélögin. Ef það er hálfs árs seinkun eða eitthvað því um líkt, hálft ár á hversu mörgum stöðugildum sem munar þarna á milli, það telur ansi hratt. Það er alveg þess virði að sýna það.

Ég hef heyrt þennan kórsöng nokkuð oft á undanförnum fimm árum. Ýmist eru þessar ábendingar mínar bara hunsaðar þrátt fyrir að það standi mjög skýrt í lögum um opinber fjármál hvað og hvernig eigi að fara að þessu, alls konar túlkanir hjá fjármálaráðuneytinu um hvað þetta þýðir í raun og veru, eitthvað allt annað en að maður sér standa skýrum stöfum í greinargerð frumvarpsins. Ég fagna þess vegna að ráðherra tali skýrt um að þetta muni gerast en spyr á móti: Hvenær megum við eiga von á því? Í næstu fjárlögum, kannski vísi að því? Bara gróf námundun á kostnað hvers lagabálks fyrir sig (Forseti hringir.) myndi hjálpa rosalega mikið við að glíma við þennan heildarfjárlagaramma og eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga. Það þarf ekki að vera hárnákvæmt, bara svona „ballpark“, u.þ.b., með leyfi forseta.