152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur. Ég ætla að endurtaka það sem kom fram, þetta er í rauninni tæknilegt mál, þetta er ekki pólitískt mál. Það segir hér um frumvarpið:

„Í frumvarpinu er skýrt tekið fram að heimildir til bráðabirgða verði aðeins veittar að því tilskildu að gerðar verði allar lagfæringar á umhverfismati sem nauðsynlegar eru til að umhverfismatið uppfylli kröfur samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Endurskoðað umhverfismat skal ná til upphafs framkvæmdar. Þá verði heimildir til bráðabirgða einungis veittar í sérstökum undantekningartilvikum, svo sem til að koma í veg fyrir sóun á verðmætum eða slys eða ef um er að ræða framkvæmd í þágu almannahagsmuna og brýn þörf er á skjótri afgreiðslu. Gert er ráð fyrir aðkomu almennings að ákvörðunarferlinu auk þess sem ákvörðunarvald um veitingu heimildar til bráðabirgðaráðstafana færist frá ráðherra til viðkomandi stofnunar, þ.e. Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, og sætir þar með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.“

Með öðrum orðum, og ég held að ég geti fullyrt það, að það er alltaf gert ráð fyrir því að einhverjir hlutir geti komið upp sem eru ekki fyrirséðir og menn verða þá að hafa eitthvert ferli í því. Það ferli var ekki nægjanlega gott samkvæmt fyrri löggjöf og menn eru að reyna að bæta úr því og gera strangari kröfur en áður.