152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[19:58]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við frumvarp sem fylgir ákveðnu mynstri. Það mynstur er að ríkið brýtur lög, eftirlitsaðili ávítar ríkið og ríkið reynir þá að setja lög sem réttlæta brotið. Hér er það umhverfið sem líður fyrir þetta ferli og þetta mynstur. Við höfum séð þetta gerast áður og við erum að sjá þetta gerast aftur. Eitt dæmi um slíkt er það sem núverandi ríkisstjórn gerði með hælisleitendur. Þeir hælisleitendur sem neituðu að fara í Covid-próf voru sendir út á götuna um miðjan vetur. Það var dæmt ólöglegt og nú sjáum við enn eitt ógeðsfrumvarpið lagt fram þar sem á að heimila allt slíkt. Hér fyrr í vor reyndi hæstv. heilbrigðisráðherra það sama með frumvarpi um nauðung en sem betur fer hafði ráðherrann vit á því að draga það frumvarp til baka.

Já, við viljum leyfa að rústa náttúrunni á óafturkræfan hátt því við viljum græða peninga á mengandi hátt. Allt er þetta síðan réttlætt með því að almenningur fái að taka þátt í ákvörðunarferlinu. Árið 1969, þegar ég fæddist, skrifaði Sherry nokkur Arnstein merka grein um tegund og stig þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Hún skilgreindi átta þrep, allt frá því að hreinlega villa um fyrir fólki yfir í fullt íbúalýðræði. Þetta frumvarp sem hér er verið að leggja fram er í mesta lagi að ná upp í annað skref sem Arnstein kallaði „therapy“.

Virðulegi forseti. Þetta minnir mig líka á eftirfarandi samtal úr bókinni um ferðalag puttaferðalangsins um himingeiminn sem heitir á ensku, með leyfi forseta, The Hitchhikers Guide to the Galaxy. Mig langar að lesa eftirfarandi samtal úr bókinni, með leyfi forseta:

„Já, en plönin voru gerð opinber. – Opinber? Ég þurfti að fara ofan í kjallara til að finna þau.

Já, þar er kynningardeildin. – Ég þurfti vasaljós.

Æ, já perurnar voru sennilega sprungnar eða bilaðar. – Já, það sama gilti um stigann. Hann var bilaður.

Já, en fannstu ekki plönin? – Jú, ég gerði það, á botninum á læstum skáp inni á ónotuðu klósetti sem var með skilti á hurðinni sem á stóð: Passið ykkur á blettatígrinum.“