152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:02]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna en ég vil þó árétta nokkra hluti. Í fyrsta lagi: Þetta snýst ekki um að ríkið sé að koma með lög til að réttlæta einhver brot. Þetta gengur þannig fyrir sig að við innleiðum mjög lítinn hluta af því sem gerist í Evrópusamstarfinu, Evrópusambandinu, en við innleiðum lög af því að við tökum þátt í ákveðnum hluta af samstarfinu. Hugsunin er þessi: Það eru sömu reglur á svæðinu. Þannig að ef hv. þingmaður ætlar að starfa annars staðar en á Íslandi þá getur hann, að því gefnu að við tökum þátt í því samstarfi sem er á markaðnum, treyst því að það séu sömu reglur t.d. í Þýskalandi og eru á Íslandi. Síðan eru eftirlitsstofnanir, annars vegar fyrir EFTA-ríkin, þau sem eru í EES-samstarfinu, Noreg, Ísland og Liechtenstein, við erum með ESA og síðan eru þeir með aðra sambærilega stofnun. Ef eftirlitsstofnunin telur af einhverjum ástæðum að við séum ekki að uppfylla ákveðna hluti, séum ekki að gera hlutina rétt þá í rauninni skiptir engu máli einhver pólitík í því, það er ekki einhver skoðun þeirra sem starfa í eftirlitsstofnuninni heldur bara er þetta ekki gert samkvæmt bókinni og þá segja þeir: Þetta er ekki rétt. En það hefur ekkert með það að gera hvaða skoðanir menn hafa á fiskeldi til eða frá, ekki neitt. Svo getum við tekið umræðuna um fiskeldi eða aðra atvinnustarfsemi. Í þessu tilviki snýst þetta bara um umgjörðina, hún stóðst ekki samkvæmt þessum reglum. Hér er þetta mál komið fram til þess að uppfylla það. Svo getum við tekið umræðu um það hvort fiskeldi í sjó eða önnur atvinnustefna sé góð fyrir náttúruna eða ásættanleg og annað slíkt og það getur verið áhugavert að gera það.