152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:05]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir kennslustund í því hvernig EES-samningurinn virkar. Ég fékk reyndar þá kennslustund þegar ég byrjaði í utanríkismálanefnd þannig að það var búið að skýra út fyrir okkur hvernig þessir hlutir virka. En það sem ég var að benda á hafði ekkert með fiskeldi að gera per sé heldur það að eftirlitsstofnun bendir á að við séum að gera hluti rangt og í stað þess að viðurkenna einfaldlega það að við vorum að gera hlutina rangt þá fer ríkisstjórnin í það að setja lög sem leyfir að skauta fram hjá þessu eins og mögulegt er. Gott dæmi: Það var nefnt í umræðu um nauðung, þegar við vorum að ræða það mál við hæstv. heilbrigðisráðherra, að það hefði verið bent á að þetta bryti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu, annan sáttmála sem við erum hluti af, og þar af leiðandi þyrfti að skoða betur hvernig þetta væri gert. Þetta hafði umboðsmaður Alþingis bent á. Þetta er það nákvæmlega sama. Í stað þess að reyna að búa til lög sem gefa einhverjar undantekningar — bara sko ef það er þriðji fimmtudagurinn í mánuði þar sem er fullt tungl, þá má ráðherra gefa leyfi. Það er það sem við erum alltaf að gera. Kannski getum við treyst hæstv. núverandi umhverfisráðherra til að fara ekki illa með þetta vald. En hvað með framtíðarráðherra sem bera kannski ekki jafn mikla virðingu fyrir umhverfinu?