152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:25]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Bara svo það sé á hreinu: Við erum hér ekki að ræða hvort fiskeldi sé leyft eða ekki. Það heyrir líka undir annan ráðherra. Ég get tekið undir ýmislegt sem hv. þingmaður sagði, sérstaklega um bleikjuna, það er gott eldi. En ég ætla að árétta að markmið stjórnvalda er að vandað sé til umhverfismats, það sé almennt í samræmi við gildandi kröfur. Almennt er því gengið út frá að sú staða komi ekki upp að leyfi sé fellt úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna gallaðs umhverfismats. Þau sjónarmið sem hv. þingmaður reifaði, sem eiga svo sannarlega rétt á sér, eru sjónarmið sem komið er inn á í greinargerðinni. Þar kemur fram, svo ég vitni í það:

„Í ljósi framangreindra umsagna við áform um lagasetninguna er rétt að árétta að frumvarpið gerir ráð fyrir að bráðabirgðaráðstafanir vegna matsskyldra framkvæmda komi aðeins til skoðunar í sérstökum undantekningartilvikum. Sérstaklega er áréttað að um þurfi að vera að ræða starfsemi sem hafi hlotið starfs- eða rekstrarleyfi að undangenginni þóknanlegri meðferð að uppfylltum skilyrðum, þ.m.t. að fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati viðkomandi framkvæmdar, en það leyfi síðan verið fellt úr gildi vegna tiltekinna annmarka. Verður því ekki fallist á að í því felist hvati til framkvæmdaraðila að skila inn ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að hljóta heimild til bráðabirgða. Með frumvarpinu er þess gætt að löggjöfin bjóði ekki upp á leið fram hjá reglum EES-réttar enda skilyrði að bætt verði úr annmörkum umhverfismats á gildistíma leyfis til bráðabirgða. Hvað varðar þátttökurétt almennings er bent á að gert er ráð fyrir að almenningur hafi aðkomu að leyfisveitingu til bráðabirgða. Almenningur hefur einnig aðkomu að endanlegri leyfisveitingu og, eftir atvikum, lagfæringum á umhverfismati.“