152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[20:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er komið mál þar sem við fáum enn einu sinni að njóta þess heiðurs að fulltrúi ríkisstjórnarinnar kemur hingað í pontu eða fram opinberlega og segir okkur að svart sé hvítt, að hér sé bara verið að festa og lagfæra og koma til móts við það sem ESA hefur bent á og hér sé verið að varðveita og koma í veg fyrir tjón á verðmætum en lítið fjallað um það sem er í rauninni verið að festa í sessi. Það er heimild í lögum til útgáfu leyfis til bráðabirgða án þess að fyrir liggi umhverfismat. Það er það sem er verið að festa í sessi.

Í stuttu máli hefst þetta mál á því að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði haustið 2018 að fella skyldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Arctic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði. Þá var jafnframt vísað frá beiðni fyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa á þessu. Þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Kristján Þór Júlíusson, brást fimlega við, gekk rösklega til verks og lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um fiskeldi sem fólu í sér sérstaka heimild ráðherra til að veita rekstrarleyfi til bráðabirgða ef fyrra rekstrarleyfi væri fellt úr gildi vegna annmarka á leyfisveitingunni, þ.e. leyfi sem háð var einhverjum annmörkum var fellt úr gildi. Þessi hæstv. sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins naut fulls stuðnings fulltrúa Vinstri grænna hér á þingi við þá ákvörðun. Náttúruverndarsamtök beindu í kjölfarið á þessu kvörtun til ESA sem komst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu vorið 2020 að framangreind heimild ráðherra væri ekki í samræmi við ákvæði Evróputilskipunar um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið, þ.e. mat á umhverfisáhrifum. Þetta eru ákvæði Evróputilskipunar og við erum að fylgja þessum reglum. Við erum að fylgja þeim reglum að veita ekki svona leyfi nema gilt mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir.

Í desember síðastliðinn birti svo ESA formlegt áminningarbréf þar sem sjónarmið í bráðabirgðaniðurstöðunni voru áréttuð, að þetta væri ekki í samræmi við ákvæði Evróputilskipunar. Það er auðvitað fyrsta skrefið í formlegu samningsbrotamáli að fá svona bráðabirgðaniðurstöðu og svo formlegt áminningarbréf. Við þessu segist ráðherra vera að bregðast núna með því að festa þennan óskapnað í lög. Það var auðvitað fyrst og fremst verið að bregðast við því að það er verið að veita leyfi til fiskeldis án þess að það sé búið að uppfylla skilyrði um að fram fari fullnægjandi umhverfismat. Markmiðið með þessu frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra virðist vera að treysta heimild með lagasetningu, eins og ég hef margtuggið hér í kvöld, sem ESA hefur gert alvarlegar athugasemdir við. Hefur þetta þau áhrif að markmiðið virðist vera að draga mjög úr vægi reglna um mat á umhverfisáhrifum á sviði fiskeldis enda leiðir það af núgildandi ákvæði og beitingu þess hingað til að fiskeldisfyrirtæki geta gengið í rauninni að því vísu að annmarkar á umhverfismati hafi ekki nein áhrif, hafi engar aðrar afleiðingar en þær að bæta þurfi seinna úr slíkum annmörkum, að þau geti gengið að því vísu að þau séu með sín leyfi og haldi sínum leyfum þrátt fyrir að það hafi risið rauð flögg, að það þurfi ekki að passa að þetta standist allt skoðun sem verið er að framkvæma af því að ráðherra muni alltaf redda þessu. Það er verið að leyfa útgáfu bráðabirgðaleyfa þrátt fyrir að það sé ekki til staðar fullnægjandi umhverfismat. Með því að festa þetta svona kirfilega í sessi er verið að draga úr hvata þessara fyrirtækja, fiskeldisfyrirtækjanna, til að vanda til verka við umhverfismat. Það er í rauninni þvert á móti verið að segja: Kastið til höndum varðandi þá vinnu af því að þið fáið alltaf bara bráðabirgðaleyfi til að passa að það fari ekki einhver verðmæti forgörðum — til að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á verðmætum eins og hæstv. ráðherra sagði.

Það hefur verið bent á það í aðdraganda þessa frumvarps að lagasetningin muni geta leitt til þess að framkvæmdaraðilar, þ.e. fiskeldisfyrirtækin, muni í auknum mæli skila inn illa unnu og ófullnægjandi umhverfismati í trausti þess að leyfisveitendur veiti þeim leyfi til bráðabirgða án þess að framkvæma fyrst gilt umhverfismat. Og þegar starfsemi sé hafin og fólk tekið til starfa og búið sé í rauninni að valda óafturkræfum umhverfisspjöllum þá sé þetta samt ferlið og það sé erfitt að afturkalla leyfin af því að, eins og hæstv. ráðherra sagði, það þarf að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á verðmætum. En hver ætlar að hugsa um verðmæti í lífríki hafsins og lífríki vatna og í þeim ám sem eru hér hringinn í kringum landið?

Aðeins útúrdúr. Þeir sem best þekkja til í þessum málaflokki segja að það sé afar brýnt að koma í veg fyrir þessa lagasetningu, þennan óskapnað, koma í veg fyrir að þessi heimild til að veita bráðabirgðaleyfi án þess að fullgilt umhverfismat hefur farið fram verði ekki lögfest. Ég svei mér þá er reiðubúin til að aðstoða við það að reyna að vinna gegn þessu af því að þetta er ekki rétt leið, herra forseti. Við hljótum að hugsa fyrst um náttúruna. Þetta er rétt eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson sagði hér fyrr í kvöld, pínulítið sama leið og átti að fara með frumvarp heilbrigðisráðherra um þvingun og nauðung: Fyrst það er verið benda á að það sé hérna verið að framkvæma ólöglegar aðgerðir inni á lokuðum geðdeildum skulum við setja það í lög, þá er það ekki lengur ólöglegt. Þetta er svolítið svipað. Við erum að horfa á það sama. Það er verið að festa í lög heimild Matvælastofnunar til að sniðganga úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að mat á umhverfisáhrifum sé haldið galla beinlínis til að lögfesta ákvæði sem gerir Matvælastofnun það kleift að líta fram hjá. Það er í rauninni verið að segja bara: Þetta skiptir engu máli. Þið fáið alltaf bráðabirgðaleyfi. Með hagsmuni náttúru og þar með almennings og komandi kynslóða í huga væri miklu nær að leggja aukna áherslu á umhverfissjónarmið eins og þróunin er alls staðar annars staðar. En hér ætla íslensk stjórnvöld enn einu sinni að leika unglinginn í skóginum. Hún nennir ekki að fara út með ruslið og ætlar að fá aðeins að svindla á þeim reglum sem við erum búin að skuldbinda okkur að fara eftir. Þetta er auðvitað í þágu allra jarðarbúa en fyrst og fremst í okkar þágu. Við erum að tala um lífríki hafsins hér í kringum landið og lífríki þeirra áa sem eru hér.

Það er alveg skýrt brot á EES-reglum að veita leyfi til framkvæmda eða starfsemi sem heyrir undir lög um umhverfismat án þess að gilt umhverfismat fari fram. En hér ætlar hæstv. umhverfisráðherra samt að gera bráðabirgðaheimild, þrátt fyrir þetta.

Ég verð að spyrja varðandi 11. gr. í frumvarpinu, af því að hann hefur talað mikið um að það sé verið að heimila almenningi að koma að og hann geti kært og svona, kæruheimild og kærufrestir og slíkt, en það er ekkert talað um frestun réttaráhrifa. Það væri gott að vita hvort kæra frestar réttaráhrifum þegar búið er að gefa út bráðabirgðaleyfi. Það er mjög mikilvægur þáttur. Er það svo eða fær fiskeldisfyrirtæki að halda áfram rekstri þrátt fyrir að umhverfismat liggi ekki fyrir af því að það fékk bráðabirgðaleyfi hjá ráðherra?

Það er algjört lykilatriði í þessari ESB-tilskipun að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt. Það er algjört lykilatriði. Ekki eftir á og ekki að þú getir einhvern veginn snuddast í leyfinu eftir að þú ert kominn með leyfi til bráðabirgða. Reglur um slíkt eftirámat grafa auðvitað undan reglum um umhverfismat framkvæmda. Vissulega er verið að stíga hérna inn, verið að lauma inn kæruheimild þannig að þátttökuréttur almennings er þarna. En hvers virði er það ef allt er í blússandi rekstri þrátt fyrir að umhverfismatið sé ekki til staðar? Ég átta mig þess vegna ekki alveg á því hvers vegna við ákváðum að fara þessa leið. Ég er ekki viss um að ESA muni stimpla þetta plagg og segja: Þetta er allt í lagi. Þið megið alveg sleppa því að hafa gilt umhverfismat. Ég er voða hrædd um að við komumst ekki langt á því af því að hér er verið að veita rekstraraðila heimild til bráðabirgða þrátt fyrir að umhverfismat sé haldið ágalla. Ég bara skil ekki af hverju ríkisstjórn Íslands árið 2022 fer fram með þeim hætti.