152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[21:16]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann vék að mér einni spurningu, hvort þetta kæmi beint niður á þeim sem fljúga. Ég held að almennt séð hvað þetta kerfi varðar þá liggi alveg fyrir að þetta er nokkuð sem menn þurfa að taka tillit til og eru að taka tillit til, öll flugfélög, hvort sem þau eru íslensk eða annars staðar, og flugvélaframleiðendur eru að taka tillit til þess að þeir verði að finna aðrar lausnir. Þá er ég að vísa til þess að flugvélaeldsneytinu sem menn eru að nota núna verður að skipta út. Þetta er ekki tilbúið og menn eru í kappi við tímann. En þetta er samt mjög hröð þróun. Þetta er í rauninni tvenns konar. Annars vegar erum við að tala um langtímaflugið, þar sem ég hef ekki heyrt neinn halda öðru fram en menn þurfi þá að nota rafeldsneyti, og síðan eru það styttri leiðirnar þar sem verið er með rafvélar. Fyrsta rafvélin er komin til landsins. Af því að það eru margar áskoranir í þessum stóra málaflokki þá gleður það mann að sjá að það eru fyrirætlanir um það í nánustu framtíð, við erum að tala um 2026 eða á einhverju því tímabili, koma fjöldaframleiddar rafflugvélar, 19 sæta, samkvæmt áætlun sem verða 65–80% ódýrari í rekstri. Þessar flugvélar, ef þetta gengur eftir, eiga að geta flogið á alla flugvelli á Íslandi. Maður er því að vonast til þess að það verði svipað og með rafbílana, að þótt það sé enn þá dýrara þá sé verðið að fara niður og rekstrarkostnaðurinn verði lægri. Það ætti náttúrlega að öllu óbreyttu að þýða, alla vega í innanlandsfluginu, lægra verð fyrir neytendur og flugfarþega og gæti orðið bylting eða alla vega mjög stór breyting í almenningssamgöngum í flugi. En hitt er á hraðri þróun og menn ætla sér þangað vegna þess að þetta vofir yfir og menn ætla að koma sér í mark hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Ef það gengur ekki þá mun það auðvitað hækka verð.