152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

loftslagsmál.

471. mál
[21:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég fæ kannski að byrja á þessari hliðstæðu við plastið. Vandinn við plast sem úrgang, sem sorp, er að of mikið er notað af plasti. Við þurfum að finna einhverjar leiðir til að breyta framleiðslukerfum, til að breyta neyslumynstri þannig að minna plast verði notað í t.d. umbúðir eða, ef við tökum dæmi sem við höfum verið að fjalla um hér á landi, að setja ábyrgð á stórnotendur á plasti þannig að stórútgerðin komist ekki upp með að endurvinna minnst af þeim veiðarfærum sem skemmast hjá þeim. Þar er sennilega einn stærsti plasthaugurinn sem verður til á Íslandi og hann er einhvern veginn utan kerfis. Svo er alltaf hægt að takast á um áherslur varðandi það hvar eigi að setja mestan fókus. Við verðum náttúrlega að bera gæfu til að vera bara með fókus sem víðast og ég er alveg sammála því að Ísland skilar kannski í heildarmyndinni ekki svo miklu, Ísland mun aldrei bjarga heiminum. En ef við erum alltaf að skoða Ísland sem hlutfall af heiminum þá getum við bara pakkað saman og farið af því að við erum alltaf lítil í öllu samhengi. En einmitt þegar kemur að rannsóknum og þróun þá getur Ísland gert hluti sem skila árangri fyrir utan landsteinana á skala sem er algerlega úr samhengi við stærð Íslands. Og svo getum við líka bara komið fram sem fyrirmynd vegna þess að ef Ísland t.d. nær skarpari umskiptum, nær að viðhalda þeim háa lifistandard sem við höfum hér á landi þrátt fyrir að umturna því hvernig (Forseti hringir.) við högum umgengni okkar við náttúruna þá getum við náttúrlega fengið stærri lönd með okkur í lið sem geta bent á Ísland og sagt: (Forseti hringir.) Ísland gat þetta, nú skulum við bara taka þetta upp og fylgja þeim.