152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:36]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna á þessu mikilvæga máli sem ég tel að skipti landsbyggðina mjög miklu máli. Í frumvarpinu kemur fram að styrkur til kaupa á tækjabúnaði sem leiðir til umhverfisvænnar orkuöflunar og/eða bættrar orkunýtingar við húshitun jafngildi helmingi kostnaðarins. Í frumvarpinu segir að styrkur fyrir 50% af kostnaði eigi, að mati ráðuneytisins, að vera nægilega hvetjandi enda leiði búnaðurinn til minni raforkunotkunar. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort það liggi einhverjir útreikningar á bak við þetta og þá hvernig þetta var fundið út. Mig langar að benda á að í frumvarpinu kemur fram, eins og ráðherra minntist á í framsögu sinni, að þetta losar allt að 110 GWst í aðra notkun. Það jafngildir 50.000 rafbílum. Það er gríðarlegur orkusparnaður af þessu. Og það að ríkið fjárfesti í þessum orkusparandi tækjum, varmadælum sérstaklega, lækkar líka útgjöld ríkissjóðs, niðurgreiðslurnar. Það sparar ríkinu. Svo er líka að þessar 110 GWst munu flytjast úr virðisaukaskattsflokki, sem er 11%, yfir í 24%, þ.e. þegar farið verður að selja þessar 110 GWst. Það kemur líka fram í frumvarpinu að lögfesting frumvarpsins muni ekki hafa nein fjárhagsáhrif á ríkissjóð. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort ekki væri eðlilegt að þessi tala, 50%, færi upp í 80%, jafnvel 90%. Jafnvel verði þetta, því nú er það þannig að orkufyrirtækin eiga, ef ég man rétt, mælana, hreinlega styrkt miklu kröftuglegar. Ég get ekki séð annað, þar sem þetta hefur engin fjárhagsáhrif og raunverulega gæti ríkið komið út í hagnaði, ég tala nú ekki um samfélagslegan ávinning, en að 50% sé einfaldlega allt of lágt.