152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski rétt að byrja á að lýsa yfir ánægju með þetta frumvarp vegna þess að allt það sem dregur úr orkuþörf er af hinu góða og er hluti af því sem þarf að gera til að takast á við áskoranir samtímans í umhverfis- og loftslagsmálum. Þetta er að hluta til angi af þeirri uppgötvun sem við höfum verið að ganga í gegnum á síðustu misserum, að þessi tilfinning ofgnóttar, að hér sé nóg og endalaust af orku, hefur kannski ekki byggt á traustum grunni. En mig langar að spyrja, vegna þess að hér er um að ræða aðgerðir til heimila sem þurfa að reiða sig á raforku til húshitunar, hvort ekki þurfi líka að skoða einhvers konar aðgerðir til að ná fram orkusparandi ráðstöfunum hjá heimilum sem nota jarðhita til upphitunar. Við erum farin að sjá æ oftar í fréttum að slíka orku skortir. Heita vatnið er búið á Selfossi, stóð í einhverjum fjölmiðlum í síðustu viku. Þar er jú hægt að bora eftir meiru en einhvern tímann verður það ekki hægt þegar Selfoss heldur áfram að stækka. Þurfum við ekki, samhliða því að hjálpa þeim heimilum sem vilja draga úr raforkunotkun til húshitunar, að fara líka í auknum mæli að líta til þess hvernig við getum dregið úr orkuþörf allra heimila, t.d. heimila hér á höfuðborgarsvæðinu? Þar er Orka náttúrunnar farin að (Forseti hringir.) stressast pínu yfir því að það vanti fleiri holur til að fæða þetta svæði. (Forseti hringir.) Við náum þessu ekki bara með því að bora nýjar holur. Við þurfum líka að draga úr þörfinni.