152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[22:49]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Við verðum auðvitað líka að gera áætlanir fram í tímann. Við erum ekki komin á þann stað, ég hef ekki heyrt neinn halda því fram, að okkur vanti heitt vatn til að hita upp hús hér á höfuðborgarsvæðinu en menn þurfa í þessu að gera áætlanir til mjög langs tíma. Þegar kemur að jarðvarmanum þá þurfa menn að rannsaka lengi áður en þeir fara í verkefnin og það þýðir að menn þurfa alltaf að hafa fyrirhyggju. Það er mikil ábyrgð sem er hjá orkufyrirtækjunum sem við reiðum okkur mikið á, að þau séu með fyrirhyggju og hugsi til langs tíma. Við erum t.d. með Orkusetrið sem hefur verið með allra handa hugmyndir um orkusparnað. Það er eilífðarverkefni að nýta betur en við þurfum auðvitað líka að sýna fyrirhyggju þannig að við sitjum ekki uppi með það að það vanti heitt vatn í húsin okkar. Það er fyrirhyggjuleysi.