152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar.

582. mál
[23:00]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór aldrei svo að þetta færi ekki út í umræðu um orkupakkann. Það er auðvitað þannig að við stýrum þessum málum sjálf. Þetta er ákveðinn rammi sem við tökum þátt í í tengslum við EES-samstarfið og ég held að engum sé greiði gerður með því að við tökum einhverja umræðu um það. Aðalatriðið er þetta og verður áhersluatriði hjá okkur, hvort sem er í þessum málum eða öðrum: Ég kem með þetta mál strax, alveg eins og frumvarpið sem ég kom inn á áðan kemur strax og ég kem með rammann strax vegna þess að verkefni okkar í loftslagsmálum er gríðarstórt og ég mun koma strax með öll þau mál sem ég tel leiða til þess að við getum nýtt orkuna okkar betur og við náum þeim háleitu markmiðum sem við höfum sett okkur. Ég er mjög ánægður að heyra viðbrögð hv. þingmanna við þessu máli.