152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:16]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða rammaáætlun eins og hún er nefnd í daglegu tali, tóku að fullu gildi 14. janúar 2013. Markmið laganna er að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra virkjunarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er gert með tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun, þ.e. rammaáætlun, sem ráðherra leggur fyrir Alþingi, og er 3. áfangi rammaáætlunar nú til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd þingsins eins og þið vitið.

Í lögunum kemur fram að áætlunin taki til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn hafi fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Hún taki ekki til stækkunar á virkjun nema stækkunin feli í sér matsskyldar framkvæmdir samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar eða úrskurði þess ráðherra er fer með skipulagsmál. Þegar lögin voru samþykkt af Alþingi var málsmeðferð stækkana á virkjunum samkvæmt þágildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum með þeim hætti að slíkar stækkanir voru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar sem tók ákvörðun um hvort um væri að ræða matsskyldar framkvæmdir. Ef stækkanirnar voru ekki matsskyldar hafði það í för með sér að þær þurftu ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Eftir gildistöku laga um rammaáætlun hafa verið gerðar breytingar á lögum um umhverfismat og samkvæmt gildandi lögum eru allar stækkanir umfram 10 MW matsskyldar. Sú breyting þýðir að stækkanir sem áður hefðu ef til vill ekki þurft umfjöllun í rammaáætlun geta nú þurft slíka umfjöllun með tilheyrandi töfum, jafnvel þótt umræddar stækkanir hafi lítil sem engin áhrif á viðkomandi svæði sem er jafnvel þegar raskað. Þá eru dæmi um það að stækkanir feli í sér breytingar á mannvirkjum sem þegar hafa verið reist og tekin í notkun en breytingarnar hafi takmörkuð umhverfisáhrif í för með sér þó svo að þær geti aukið afl virkjunar talsvert.

Í frumvarpinu sem ég mæli hér fyrir er lögð til sú breyting að áætlunin taki ekki til stækkana á virkjunum sem þegar eru í rekstri og sökum stærðar falla undir lögin, svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér að óröskuðu svæði verði raskað. Með því að undanskilja stækkanir á virkjunum sem eingöngu hafa áhrif á það landsvæði sem þegar er búið að taka ákvörðun um að heimila nýtingu á verður hægt að hraða framkvæmdum til að auka afkastagetu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri.

Mig langar til að taka dæmi um stækkanir á virkjunum sem breytingin hefði áhrif á. Í 4. áfanga rammaáætlunar, sem enn er til vinnslu hjá verkefnisstjórn, fékk verkefnisstjórn til umfjöllunar fjóra virkjunarkosti sem fólu í sér stækkanir á virkjunum sem þegar eru í rekstri. Var þar um að ræða þrjár vatnsaflsvirkjanir á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og jarðvarmavirkjunina að Svartsengi. Samtals hugðist Landsvirkjun, sem rekur vatnsaflsvirkjanirnar þrjár, auka uppsett afl virkjananna um 210 MW og áætlað var að samanlögð orkuvinnslugeta myndi aukast um 25–42 gígavattstundir á ári. Í Svartsengi hljóðuðu áformin upp á aflaukningu um 50 MW og samsvarandi aukningu í orkuvinnslugetu upp á 410 gígavattstundir á ári. Faghópar 1 og 2 í 4. áfanga fengu alla virkjunarkostina fjóra til umfjöllunar. Hvað vatnsaflsvirkjunarkostina þrjá varðaði komust báðir faghópar að því að áhrif virkjunarkostanna á öll viðföng og undirviðföng faghópanna yrðu engin eða óveruleg. Hvað stækkun jarðvarmaversins í Svartsengi varðar mat faghópur 1 bæði verðmæti og áhrif stækkunarinnar. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að verðmæti svæðisins væri undir meðallagi, sem endurspeglar að svæðið er þegar raskað, og að áhrif stækkunarinnar á flest viðföng og undirviðföng væru undir meðallagi líka, enda framkvæmdir bundnar við svæði sem þegar eru röskuð. Samkvæmt mati faghóps 2 yrðu áhrif framkvæmdanna á viðföng þess hóps einnig lítil sem engin. Út frá ofangreindu má álykta að framkvæmdir á þegar röskuðum svæðum séu almennt þess eðlis að áhrif þeirra á viðföng faghópa 1 og 2 séu takmörkuð, a.m.k. í þeim tilfellum þegar um er að ræða framkvæmdir sem eru af sama toga og þær framkvæmdir sem áður hafa farið fram á svæðinu og einkenna það.

Ég tel mikilvægt að taka það fram að með breytingunum er ekki verið að gefa neinn afslátt af þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra framkvæmda sem undir breytingarnar falla. Stækkanir á virkjunum munu áfram vera háðar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda auk þess sem veiting Orkustofnunar á nýju virkjunarleyfi er áskilin samkvæmt raforkulögum og að auki nýju nýtingarleyfi þegar um er að ræða jarðvarmavirkjanir. Ég er því alls ekki að leggja til að hægt verði að ráðast í stækkanir á núverandi virkjunum án lögbundinnar umfjöllunar um slíkar stækkanir heldur er eingöngu verið að leggja til að þær þurfi ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar.

Þá er jafnframt nauðsynlegt að benda á að ekki verður hægt að komast fram hjá ferli rammaáætlunar með því að skipuleggja og reisa virkjun undir stærðarmörkum laganna og stækka hana síðan þannig að hún fari yfir stærðarmörkin án umfjöllunar í rammaáætlun. Slíkar stækkanir munu þurfa að fara í gegnum ferli rammaáætlunar eins og lögin kveða á um.

Hæstv. forseti. Ég tel þetta frumvarp vera mikilvægan þátt í því ferli umbreytinga sem við erum að ganga í gegnum hér á landi. Orkuskiptin eru stórt verkefni og lykilpartur af því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Til að hægt sé að fara í orkuskipti er hins vegar nauðsynlegt að framleiða meiri orku, en eins og við höfum öll verið vör við þá hefur orkuskortur og skerðing á orku verið mikið í umfjöllun síðustu vikur og mánuði. Með þessu frumvarpi er verið að gefa tækifæri á að hraða aflaukningu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri á landsvæðum sem búið er að taka ákvörðun um að heimila virkjunarrekstur á.

Hæstv. forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokinni 1. umr.