152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

583. mál
[23:29]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoðar örugglega þessa þætti sem hv. þingmaður er að vísa til. Mér finnst mjög magnað að þetta sé hægt með virkjanir sem eru til staðar. Ég tók dæmi um stórar virkjanir en hef líka heyrt um smávirkjanir þar sem menn eru, með því að endurnýja tækjabúnaðinn, að stórauka nýtinguna og það finnst mér bara vera gríðarlega góðar fréttir. Ég veit ekki alveg hvort við ættum eitthvað að reyna að takmarka það ef það uppfyllir þau skilyrði sem hér er lagt upp með. Mér finnst nefnilega merkilegt að menn geti með sömu virkjun, með nýjum tæknibúnaði og án annarra breytinga, náð miklu meiri nýtingu en við erum með núna. Varðandi vindorkuna þá er hún kannski ekki alveg til umfjöllunar núna en það er sjálfsagt að segja frá því að hafin er vinna til að bera saman hvað hefur verið í gangi í nágrannalöndum okkar því þau eru flest komin mun lengra á veg en við þegar kemur að vindorkunni. Það er gott að hafa það til samanburðar þegar við komum fram með frumvarp eða ramma í kringum vindorkuna eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Eins og er eru vindorkukostir auðvitað inni í rammanum, eins og hv. þingmaður þekkir, þó að þeir séu nú ekki margir. Ég vona að menn skoði það vel í umfjöllun hv. umhverfis- og samgöngunefndar.