Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[18:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á ræður í dag um þetta mikilvæga mál, að við tökum verulega umræðu um þetta mikilvæga mál sem tengist þjóðaröryggisstefnunni og breytingar á gildandi þjóðaröryggisstefnu. Það er rétt sem hefur komið fram, það á að endurskoða þjóðaröryggisstefnu á fimm ára fresti. Hún var samþykkt 2016 og í rauninni hefði átt að vera búið að taka hana fyrir fyrir um tveimur árum síðan en það er náttúrlega eitt og annað sem hefur orðið til þess að því var frestað, sem er miður því um leið undirstrikar það að við erum ekki með nægilega mikinn fókus á því sem ég ætla að leggja áherslu á hér á eftir varðandi varnar- og öryggismálin sjálf, þessar svokölluðu hreinu varnir, gamaldags svarnir og öryggismál sem við viljum ræða þá aðeins og fara dýpra í.

Tillagan sem liggur fyrir af hálfu forsætisráðherra er góð og gild. Það er ljóst að á ákveðnum sviðum erum við að taka til hendinni og erum að stíga mikilvæg skref til að styrkja okkur hvað varðar orkuöryggi, fæðuöryggi, matvælaöryggi, fjarskiptaöryggi. Það er alveg ljóst líka á máli gestanna að þetta er engan veginn fullkomið, síður en svo. En við erum alla vega að stíga skref áfram til að styrkja okkur á þeim sviðum og erum að taka umræðuna. Við erum að móta ákveðna stefnu hvað þetta varðar. Síðan auðvitað kom það fram af hálfu ýmissa gesta sem komu fyrir nefndina að fólk saknaði þess að í viðbótartillögunni var aldrei talað um varnir. Eina skiptið sem var talað um varnir var í gömlu tillögunni. Það var ekki verið að tala um varnir og það núna þegar ein mesta ógn síðari tíma varðandi stríðsátök og í allri Evrópu steðjar að okkur eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu með allri sinni grimmd, offorsi og því sem því fylgir. Þannig að það sem ég er að segja er að við höfum ekki farið eins og allar Evrópuþjóðir — þess vegna fannst mér miður að sjá upphaflegu tillöguna frá forsætisráðherra — að taka tillit til þessara gjörbreyttu aðstæðna. Þegar umræðu um breytingu á þjóðaröryggisstefnu er frestað um þessi tæpu tvö ár þá hélt ég einfaldlega að það væri einmitt verið að fresta henni af því að það væri verið að vinna að ákveðnum hlutum í tengslum við hina ofbeldisfullu innrás Rússa í Úkraínu. Það er ekki.

Eins og kom m.a. fram í máli gestanna er þetta mjög fín og uppfærð almannavarnaáætlun. Það er ekki spurning. Það hefur verið vandað til verka á mörgum sviðum. En við sjáum líka að það er ekki verið að taka föstum tökum það sem skiptir okkur mjög miklu máli, að ríkisvaldið, stjórnvöld hverju sinni, sýni fram á það að þau séu ávallt með augun á boltanum þegar kemur að því að verja öryggi borgaranna. Þetta er svolítið blankó, þetta er bara svona eyða sem var sett fram fyrir þjóðina og birtist okkur í nefndinni en hún hefur hnykkt aðeins á nokkrum þáttum, þó ekki nóg.

Ég vil þó engu að síður taka það fram að þjóðaröryggisstefnan sem er í gildi, frá 2016, hefur sannað að hún er mikilvæg. Hún veitir stjórnvöldum ákveðið aðhald en hún er líka að draga fram og ýta á samstarf og samvinnu þvert yfir ráðuneyti, þvert yfir stofnanir, og það væri óskandi að þetta myndi nú líka leiða til ákveðinnar hagræðingar í rekstri og einfaldara regluverks og gegnsæis og allt það. En þetta þrýstir alla vega á aukið samtal og samvinnu af því að þjóðaröryggisráð er í rauninni ekkert annað en samstarfsvettvangur. Það er hins vegar utanríkismálanefnd, og það kom líka fram í meðförum nefndarinnar, sem ríkisstjórnin á lögum samkvæmt að hafa samstarf við, utanríkisráðherra á að hafa samstarf við og samtal við þegar kemur að einhverjum stórfelldum breytingum. Það var reyndar ekki gert þegar utanríkis- og forsætisráðherra skrifuðu blessunarlega undir breytingar á grunnstefnu NATO. Það samtal á undan þeirri undirskrift átti sér ekki stað innan utanríkisnefndar. Þetta er eitt lítið dæmi um það sem ég tel varhugavert að taka án þess að samræða og samtal eigi sér stað um það hvort utanríkismálanefnd sé orðin svona til hliðar meðan verið er að fara með ákvarðanir inn í þjóðaröryggisráð sem að hluta til er byggt upp af einstaklingum sem hafa þekkingu, já, en hafa ekki lýðræðislegt umboð að baki sér eins og utanríkismálanefnd hefur. Þetta eru ákveðnar vangaveltur í tengslum við mikilvægi þess að það sé haft samráð við utanríkismálanefnd.

Aðeins að nokkrum öðrum þáttum og bara tvennt sem hefur fengið mig til að hugsa og það eru dæmi um það hversu markvisst er verið að fylgja eftir málum í þjóðaröryggisráði. Hversu mikið samtal á sér stað? Er verið að veita okkur kannski pínulítið falskt öryggi með því að hafa starfandi þjóðaröryggisráð þegar allt í einu, korteri eftir að búið er að afgreiða fjárlagafrumvarpið, búið að samþykkja fjárlög, þá kemur dómsmálaráðherra og leggur til að flugvél Landhelgisgæslunnar verði seld? Hvaða umræða hafði átt sér stað innan þjóðaröryggisráðs? Hvaða umræða hafði átt sér stað innan ríkisstjórnar? Það vantar þessa ventla sem við þurfum á að halda og ég hélt einfaldlega í einfeldni minni að þjóðaröryggisráð væri með þá ventla en svo var ekki. Þetta er eitt dæmi. Hitt er salan á Mílu þar sem ég vildi staldra við, ekki út af því að það væru erlendir fjárfestar að koma, alls ekki það, heldur út frá þjóðaröryggismálum. Það kom mér satt best að segja á óvart að það hafi ekki verið farið — þetta voru svona eftiráskýringar sem við fengum — betur yfir það mál allt á vegum þjóðaröryggisráðs. Tilsvör ráðherra, til að mynda innviðaráðherra, voru stundum þannig að þau kölluðu á fleiri spurningar en við höfðum fengið svör við. Til að mynda gerði hann sér ekki grein fyrir því hvort með sölunni fylgdu virkir innviðir eða óvirkir innviðir. Það var ekkert hægt að lesa það. Þannig að þetta tvennt er dæmi um hugsanlega falskt öryggi sem við búum við undir hatti þjóðaröryggisráðs.

Satt best að segja er þessi ríkisstjórn ekki búin að vera með nægjanlegan fókus á þessu sviði en ég vil hins vegar draga fram að það er verið að bæta mjög margt á þessu sviði í þjóðaröryggisráði og í þessari tillögu um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og ég held að það sé margt sem við þurfum að læra. Þetta er samt allt of tilviljunarkennt. Það vantar sterkari stjórnsýslu utan um þetta. Það vantar skýrari verkferla og ég held að einfaldleikinn væri hér mjög hjálplegur til að þetta yrði gegnsærra og skiljanlegra og það yrði líka meira aðhald á stjórnvöldum þannig að það væri ekki hægt allt í einu bara að leggja til að einhverjir virkir innviðir, sterkir innviðir, mikilvægir innviðir, yrðu seldir eða lagðir niður án þess að einhver öryggistæki innan okkar samfélags myndu grípa í taumana. Þetta er nýlegt dæmi, vangaveltur af minni hálfu.

Hitt sem ég ætla síðan að setja kannski meiri fókus á er það sem kemur skýrlega fram í þeirri grundvallarforsendu þjóðaröryggisstefnunnar sem er í gangi; sérstaða Íslands sem herlauss lands sem tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Með virkri samvinnu við önnur ríki og alþjóðastofnanir — þetta er algjörlega hárrétt. Lykilstoð í okkar þjóðaröryggi er auðvitað aðildin að NATO og síðan varnarsamningurinn við Bandaríkin. Það er hins vegar alveg að mínu mati makalaust að sjá að það er ekki verið að taka tillit til þeirra breytinga sem hafa orðið á umheiminum, það er hvergi sem liggur fyrir mat á því til hvaða varna við eigum að grípa. Einhver nefndi hérna að ég hafi nefnt áður í hvern eigi að hringja. Hvernig virkjum við það ef það eru árásir á Ísland, ef það eru árásir á ákveðna innviði okkar? Hvaða ferli fer af stað? Ég spurði aðeins innan nefndarinnar við umfjöllun um þjóðaröryggisstefnu og það var bara ekkert skýrt. Það var bara alls ekki skýrt hvað þetta varðar.

Ég vil taka undir það sem hefur komið hér fram, m.a. af hálfu hv. þm. Loga Einarssonar, að það er eiginlega sjaldan meiri þörf á því að vera í virku alþjóðlegu samstarfi þegar við erum að ræða um grundvallarbreytingar og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag, til að ná í frið, til að berjast fyrir friði, en ekki síður líka fyrir stórum verkefnum eins og loftslagsmálunum. Loftslagsmálin eru tekin hérna inn í grundvallarstefnuna. En hvernig verjum við best okkar kröftum í loftslagsmálum? Að mínu mati er það í gegnum öflugt alþjóðastarf, fjölþjóðlegt starf eins og Evrópusambandið, af því að það leiðir vagninn í loftslagsmálum. Ef okkur er einhver alvara um að vera ekki bara að fylgja alltaf í humátt á eftir Evrópusambandinu heldur að vera virkir þátttakendur í því að berjast við loftslagsvána þá gerum við það best með alþjóðasamstarfi. Við sjáum líka að á þeim sviðum þar sem við höldum okkar stjórn algjörlega og fullkomlega, eins og á sviði loftslagsmála, þá er metnaðurinn minni en hjá Evrópusambandinu, með fullri virðingu fyrir ríkisstjórninni sem meinar vel. Þar sem hún hefur tækin og tólin til þess að skara svolítið fram úr á ákveðnum sviðum, taka málin í sínar hendur, þá gerir hún það ekki. Ítrekað erum við að sjá að full þátttaka í alþjóðasamstarfi er aðhald á okkur. Það er aðhald á okkur að standa okkur á þeim sviðum sem við viljum tala fyrir, berjast fyrir, hvort sem er á sviði loftslagsmála eða líka á sviði varna.

Ég vil draga það fram að við í Viðreisn höfum náttúrlega lagt fram, og vorum eini þingflokkurinn sem lagði strax fram, tillögu um það hvernig við ætluðum að auka okkar alþjóðasamstarf í öryggis- og varnarmálum. Við gerðum það strax, tillögu í fjórum liðum, eftir að árás Rússa inn í Úkraínu hafði átt sér stað fyrir rúmu ári síðan. Við vildum í fyrsta lagi einmitt sýna öflugri samstöðu með bandalagsþjóðum með því að stórauka þátttöku Íslands í borgaralegum störfum. Við vildum í öðru lagi gera varnarsamstarf við Bandaríkin virkara, fara í markvisst samtal og samvinnu við þau á grunni varnarsamningsins, m.a. að tala um það hvernig hann verður virkjaður ef það verður árás með einhverjum hætti á Ísland.

Við vildum líka fara í það — og það er alveg óskaplega mikil hálfvelgja í gangi þegar við erum að tala um viðveru varnarliðs. Við erum ekki að tala um að það eigi að byggja hér upp einhvern her, síður en svo. En við þurfum að geta talað um það að við erum til að mynda eina þjóðin sem hefur ekki allt árið um kring loftrýmisgæslu. Af hverju ekki? Hvaða mat hefur átt sér stað á okkur? Að því sögðu vil ég líka bæta við að við eigum náttúrlega sjálf að byggja upp þekkingu til að meta hvaða varnir við viljum hafa, hvaða öryggisventla við viljum hafa. Það erum við ekki að gera. Við erum algerlega að fela öðrum þjóðum það þegar kemur að hinum hefðbundnu vörnum Íslands. Þannig að mínu mati er einhver hálfvelgja, verið að tipla á tánum í kringum þetta allt saman, hvort það megi tala um þetta. Það má varla tala um þetta og fólk fer í svona flissstellingar þegar þetta er nefnt, varnir landsins og hverju við þurfum á að halda.

Þetta er sú tillaga sem við höfum lagt til. Síðan þurfum við líka að meta, og það tengist annarri tillögu sem við höfum líka lagt fram, hvar hagsmunum Íslands er best borgið. Er hagsmunum Íslands best borgið í tvíhliða samstarfi eða í fjölþjóðasamstarfi? Við höfum lagt fram tillögu um að það verði einmitt farið í slíka markvissa vinnu, bara blákalt í ljósi þess að við þurfum að endurmeta okkar varnir. Við þurfum að endurmeta okkar öryggishagsmuni. Þá þurfum við líka að endurmeta hvar okkar hagsmunum er borgið á þessum breyttu tímum — gagnvart þessum gríðarlegu áskorunum sem fer betur á að fara í og tækla með öðrum þjóðum heldur en ein og sér. Vel að merkja hafa allar aðrar þjóðir innan Evrópu farið í að endurmeta ekki bara það hvar þær standa í alþjóðasamstarfinu heldur farið í að endurmeta varnir sínar. Danir fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu og ákváðu núna, af því að þeir voru ekki í svonefndum varnarhluta innan ESB, að fara af fullum krafti inn í það og Danir samþykktu það með í kringum 70% greiddra atkvæða.

Og af hverju er það? Af því að Evrópusambandið er að fara að taka meira til sín í vörnum, fyrir utan að Evrópusambandið er á sínum tíma hluti af uppbyggingu vestrænna lýðræðisþjóða, þar með talið Bandaríkjanna, til friðar í Evrópu. Það er önnur hliðin á þeim peningi hvernig við ætlum að byggja upp frið í Evrópu. Það var annars vegar að fara í gegnum viðskipti, opinn og frjálsan markað og hins vegar að fara í gegnum NATO. En það er alveg ljóst á samtali, samstarfi og samningum ESB og NATO að menn ætla Evrópusambandinu stærra hlutverk og það minnkar ekki með tilkomu Svía og Finna inn í NATO. Það mun ekkert minnka heldur verða enn frekari tengsl þar á milli. Þannig að þetta þurfum við að skoða. En við höfum ekki farið sjálf — og ég vona að menn skilji mig ekki svo, það er af mikilli virðingu sem ég segi þetta — meira að segja Færeyjar hafa sérstaklega skrifað bæði til Danmerkur og Evrópusambandsins með tilliti til sinna varna. Norðmenn eru farnir af stað í dýpri samtöl og samvinnu við Evrópusambandið vegna varna en við, af því að, og þá er ég komin að því sem allir vita, samsetning ríkisstjórnarinnar er þannig að það er auðvitað einn stjórnarflokkur sem greiddi ekki atkvæði með þjóðaröryggisstefnunni á sínum tíma. Ég spái því að það verði fleiri sem gera það núna og við sjáum að það verði a.m.k. forsætisráðherra og formaður utanríkismálanefndar sem munu greiða þessu atkvæði, spái ég, og það verður fróðlegt að sjá hvaða fleiri þingmenn munu greiða atkvæði með þjóðaröryggisstefnunni.

Mér fannst mjög mikilvægt að við vorum og erum öll á þessari meirihlutatillögu, þessu nefndaráliti og tillögum sem draga það fram að það er mjög til bóta að ákveðnar breytingar hafa orðið sem tengjast grunnstefnu NATO, tengjast orðalagi í stefnunni sjálfri, þannig að það er mjög til bóta. En það er að mínu mati hins vegar ekki nóg og þess vegna tel ég mikilvægt að leggja þessa tillögu fram. Þetta er mjög hófleg tillaga. Þetta er tillaga sem ég veit að til að mynda Sjálfstæðisflokkurinn hefði lagt fram sjálfur ef hann væri ekki í þessari blöndu af ríkisstjórn. Ef Vinstri græn væru ekki í ríkisstjórninni þá hefði þetta verið tillaga Sjálfstæðisflokksins sem slíks um að vinna að sérstakri varnarstefnu fyrir Ísland sem byggist á þeim forsendum sem fram koma í þjóðaröryggisstefnunni. Við erum að segja að það eigi að tvinna þetta inn í þjóðaröryggisstefnuna og þessi varnarstefna leggi grunn að og skýri fyrirkomulag stjórnsýslu. Það er nákvæmlega það sem kom fram aftur og aftur á fundum nefndarinnar; það er ekki skýrt hvernig stjórnsýslan fúnkerar og hvernig framkvæmdin er og ábyrgðin á varnarmálum. Hugsanlega er varnarkostnaðurinn á varnarmálunum skýrari en áður en annað er ekki skýrt. Við leggjum til að varnarstefnan verði á ábyrgð utanríkisráðuneytisins — að sjálfsögðu verður hún á ábyrgð utanríkisráðuneytisins af því að samkvæmt því fyrirkomulagi sem er núna þá ber utanríkisráðuneytið ábyrgð á utanríkismálum og vörnum landsins.

Þessi stefna á samkvæmt tillögu okkar að vera hluti af þjóðaröryggisstefnu og uppfærð með reglubundnum hætti að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Og það er af ástæðu, eins og ég gat um áðan, að ég dreg hér sérstaklega fram utanríkismálanefnd þingsins, af því að það virðist vera svolítil hentistefna hvenær er haft samráð við nefndina og hvenær ekki. Á þessu vildi ég hnykkja sérstaklega.

Nefndin setti fram breytingar á plagginu sem forsætisráðherra lagði fram, plagg sem er bara ljómandi fínt en algerlega meinlaust plagg, tekur ekki tillit til þessa umhverfis, þessara stríðsátaka sem eru núna, tekur ekki tillit til þess að allar aðrar þjóðir eru að endurmeta sínar varnir. Það er engu að síður mikilvægt að við unnum þetta vel, skerptum á ákveðnum hlutum og það var ánægjulega mikil samstaða um flesta hluti í nefndinni þó að það hafi ekki fundist hljómgrunnur hjá stjórnarflokkunum til að standa á bak við það að taka þessa tillögu mína inn í nefndarálitið. Það fannst mér miður af því að þetta sendir líka skýr skilaboð, að við séum að vinna okkar heimavinnu þegar kemur að vörnum landsins. Þetta er þjóðaröryggisstefnan. Hún er ekki bara almannavarnaáætlun. Hún er mikilvæg sem slík en við þurfum að láta þjóðaröryggisstefnuna taka til varna landsins. Annað er óboðlegt á þessum tímum.