Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:09]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka framsögu hv. nefndarformanns og mjög góða og gagnlega umræðu hér í þingsal. Ég fagna því að við ræðum hér loksins endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar. Sömuleiðis er samstaða utanríkismálanefndar í málinu ánægjuleg og samstarfið þar og yfirferð málsins hefur verið mjög vönduð. Það er virkilega jákvætt hversu samstiga þingmenn hafa verið, úr öllum flokkum, varðandi grunngildi okkar og algjöra samstöðu lýðræðisríkja í þeim áskorunum sem við höfum glímt við í öryggis- og varnarmálum.

Þótt þjóðaröryggisstefnan frá 2016 hafi staðið vel fyrir sínu er ljóst að heilmiklar vendingar hafa orðið í öryggis- og varnarmálum sem hafa óhjákvæmilega áhrif á endurskoðun stefnunnar. Þar er innrás Rússa í Úkraínu, stríð í Evrópu, auðvitað ofarlega í huga en sömuleiðis hröð tækniþróun, sérstaklega í net- og upplýsingatækni. Það er nauðsynlegt að bregðast ákveðið við auknum áskorunum og breyttu öryggisumhverfi.

Virðulegi forseti. Eins og fleiri hv. þingmenn hafa áréttað hér í umræðunni er mikilvægt að Ísland sé bæði virkur og áreiðanlegur aðili í alþjóðlegu samstarfi á sviði öryggis- og varnarmála. Við getum ekki verið eftirbátur í alþjóðlegu samstarfi og þurfum að fylgja eftir alþjóðlegum skuldbindingum í málaflokknum. Mig langar að taka undir það sem m.a. hv. þm. Logi Einarsson kom hér inn á í umræðunni varðandi það að það er eitt að skrifa út stefnu og markmið á blað, en annað er svo að framkvæma þetta og auðvitað að fjármagna. Það á reyndar við um fleiri málaflokka en þennan. Það var þess vegna sérstaklega ánægjulegt að fylgjast svo náið með breytingunum sem við Sjálfstæðismenn leiddum og leiðum enn í utanríkisráðuneytinu. Að hugsa sér að það séu aðeins örfá ár síðan utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins endurvakti þar varnarmálaskrifstofu, og setti á fót deild fjölþáttaógna, svo dæmi séu tekin. Vaxandi framlög í þessum málaflokki tala sínu máli og sömuleiðis fjárfestingar hér á landi vegna varnarsamstarfs okkar.

Ég vek sérstaklega athygli á áherslu hv. utanríkismálanefndar á varnir landsins og grunnstefnu okkar í varnarmálum sem er auðvitað aðild okkar að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Þetta eru hornsteinarnir í vörnum Íslands og jákvætt að nefndin leggi til breytingar til að undirstrika það. Þá er sömuleiðis mikilvægt að samráð þjóðaröryggisráðs og utanríkismálanefndar sé aukið og jákvætt að sameiginlegur skilningur beggja aðila varðandi það sé undirstrikaður í nefndaráliti. Ég tek þess vegna heils hugar undir áréttingu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um þetta og varðandi lögbundið hlutverk utanríkismálanefndar.

Virðulegi forseti. Ég tek að svo búnu undir tillögu hv. utanríkismálanefndar þess efnis að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem nefndin leggur til.