Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki minna, segir hv. þingmaður og segir mér það, eins og hennar er von og vísa, að hún vill taka tillit til samstarfsflokkanna og ekki síst Vinstri grænna þegar kemur að þessu. Auðvitað var það ákveðin blessun árið 2016 að það var mikill og breiður meiri hluti með þjóðaröryggisstefnunni þá sem markaði mjög ákveðin spor og mikilvæg. Það þurfti ekki að fara í það að víla og díla við Vinstri græn varðandi mótun þeirrar þjóðaröryggisstefnu heldur voru bara ákveðnir grunntónar slegnir þar. Núna hins vegar í breyttu umhverfi, gerbreyttu umhverfi, einni mestu ógn sem steðjar að vestrænum lýðræðisríkjum með stríðinu í Úkraínu, þá finnst mér miður að ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á hlut að skuli ekki vera skýrari í þessu. Ég virði hv. þingmann og það sem hv. þingmaður segir hér, að það mætti ekki vera minna að gert. Það voru mikilvægar breytingar gerðar á þessari tillögu sem liggur fyrir en að mínu mati eru þær ekki nóg. Í því felst minn fyrirvari. Ég tel að við eigum að hætta að tipla á tánum þegar kemur að umræðu um varnir landsins og fara að einbeita okkur að því sem skiptir máli, þ.e. að meta hagsmuni okkar, setja fram stefnu og hafa skýra ferla um það hvernig stjórnkerfið á að virka, stjórnsýslan og fjármögnun o.s.frv. þegar kemur að vörnum landsins. Og þá meina ég vörnum, þessum hreinu og kláru vörnum sem við eigum við, ekki í heild sinni þessa almannavarnaáætlun sem þjóðaröryggisstefnan er í raun.