Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[19:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þá þætti mér gott ef hv. þingmaður myndi bara segja nákvæmlega hvernig það er ef við þurfum að virkja aðstoð Bandaríkjanna, ef það yrði árás á ákveðna innviði eða yrði árás á ákveðinn hluta, hvernig við förum að virkja — hvað það er nákvæmlega sem liggur fyrir. Ég hef spurt að því í nefndinni og þau svör höfum við ekki fengið.

Ég vil í öðru lagi spyrja hv. þingmann: Finnst hv. þingmanni að þetta tilvik sem kom upp með flugvél Landhelgisgæslunnar, svona allt í einu í byrjun febrúar sé gott merki um að við séum með skýra varnar- og öryggisstefnu? Er það alveg skýrt að þau viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra að fara í að selja vélina séu einkenni skýrrar varnarstefnu Íslands á þessum tímum?

Ég vil líka mótmæla því sem hv. þingmaður segir um að við höfum verið að tala um landher, og ég nefndi það sérstaklega, að við séum eingöngu að tala um hann. Við erum að tala um að það er ákveðin viðkvæmni í gangi. Við erum með loftrýmiseftirlit, við erum með kafbátaeftirlit, en það er eins og það sé viðkvæmni við því að segja: Heyrðu, við ætlum bara að hafa þetta allt árið um kring. Af hverju þessi viðkvæmni? Af hverju getum við ekki bara sagt að þetta verði hér? Hvaða mat hefur átt sér stað að um það sé betra að hafa þetta svona en að hafa ákveðinn fælingarmátt í því að segja að við séum með öflugt kafbátaeftirlit og sterka loftrýmisgæslu og með viðvarandi lið herlið sem sinnir þessari gæslu? Því meira sem við ræðum þetta, því meira finnst mér fólk tipla á tánum í kringum þetta allt saman af því að stjórnarsamstarfið er með þeim hætti sem það er. Ef það er ekki út af því, þá finnst mér enn verra að finna að það sé orðið meira metnaðarleysi hjá Sjálfstæðisflokknum þegar kemur að varnar- og öryggismálum.