Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðisgóða ræðu en því er ekki að leyna að við komum svolítið úr sitt hvorri áttinni þegar kemur að gagnrýni á þjóðaröryggisstefnuna. Mér fannst hins vegar áhugavert það sem hann dró fram sem ég tel einmitt eins og hann vera mikinn galla á þessu umhverfi sem við búum í. Það er ekki nægilega mikill skýrleiki. Það er þessi feimni við að segja hlutina eins og þeir eru. Hluti af því að ég er að draga fram varnarstefnu, að varnarstefna sé mikilvæg, er að við höfum það alveg skýrt hvaða skilyrði þarf að uppfylla, hvernig stjórnsýslan á að virka, hvenær við ætlumst til þess að það verði hér herafli viðvarandi. Hann er í rauninni að einhverju leyti viðvarandi með loftrýmisgæslunni og kafbátaleitinni en það er eins og við þorum ekki að segja það. Það má ekki segja það. Það er þessi feluleikur, hugsanlega út af vanlíðan Vinstri grænna í þessu en það má einfaldlega ekki segja hlutina eins og þeir eru. Það eru hér hermenn, því miður ekki alveg upp á hvern einasta dag, en ég tel það mikilvægt af því við erum enn þá eina landið innan NATO sem er ekki með viðvarandi loftrýmiseftirlit. Ég myndi telja æskilegt að við segjum einfaldlega að við erum með viðvarandi herlið að einhverju leyti með loftrýmisgæslunni og værum ekkert feimin við það. Þetta er eitt af því sem hefur komið fram. Alveg eins og þegar hæstv. ráðherrar voru að undirrita grunnstefnu NATO, sem ég tel að hafi verið mjög mikilvægt, þá var feluleikurinn það mikill, það átti að sussa það svo mikið niður að það var ekki rætt við utanríkismálanefnd á undan. Það er svolítið eins og það eigi bara að uppfylla grunnstefnu NATO fyrir utan Ísland en að hún nái ekki hingað heim. Þess vegna tel ég breytinguna á skjalinu hjá nefndinni á milli umræðna, þ.e. að hnykkja á því að grunnstefnan sé hluti af okkar þjóðaröryggisstefnu, skipta gríðarlega miklu máli af því að við vorum ekkert með það á hreinu hvort það væri ætlunin.