Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 69. fundur,  27. feb. 2023.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[20:06]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skýrleikann sem vantar þá hefur mér fundist hálfkómískt hvernig utanríkisráðherrar hafa svarað um viðveru herliðs. Ráðuneytið vill ekki tala um fasta viðveru herliðs hér á landi vegna þess að föst viðvera feli í sér fasta búsetu sömu einstaklinga á ársgrundvelli. En á hverjum einasta degi ársins eru hundruð hermanna á Keflavíkurvelli, á hverjum einasta degi síðustu, ja, hvað erum við að tala um mörg ár núna? Frá 2015, þetta eru að vera átta ár, hafa verið hermenn daglega á Keflavíkurvelli en það heitir ekki föst viðvera vegna þess að þau búa ekki þar heldur eru þau bara í sex vikur eða sex mánuði eða hvað það er. Frá mínum bæjardyrum séð skiptir engu máli hvað hermaðurinn heitir sem er á staðnum. Það skiptir engu máli hvort það sé þessi flugvél eða hin sem sinnir kafbátaeftirlitinu. Þessar róteringar sem eru á Keflavíkurvelli þykja mér eiginlega bara vera til þess að slá ryki í augun á þeim sem eru einmitt að reyna að sjá þessa föstu viðveru raungerast. Hún er orðin en hún má ekki heita það. Sama hefur átt sér stað víða á vegum Bandaríkjanna sérstaklega vegna þess að sú fasta viðvera sem fólk þekkti hérna meðan herstöðin var og hét er öðruvísi, það er bara ekki þannig sem herstöðvar eru reknar í dag. Í dag er þetta miklu meira legókubbaherstöðvar þar sem púslað er saman einingum eftir getu og þörfum hverju sinni. Þó að það yrði ákveðið að „opna herstöð“ þá yrði það væntanlega aldrei með fastri viðveru með sama hætti og var hér áður fyrr.