154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:35]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Þetta er, eins og fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa talað, auðvitað ömurlegt ástand. Þetta er, ef horft er til hins hagfræðilega hluta lífsins, eitt það versta við að vera Íslendingur; það eru þessi lánakjör sem okkur standa til boða og eru að stórum hluta til fest við vísitölu sem fer bara upp, fer bara alltaf upp. Við höfum horft upp á það undanfarið að lán fólks hafa rokið upp og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson fór ágætlega yfir það hér áðan hvernig það er. En þetta er hins vegar vandamál sem leiðir bara af einum hlut, og það verður að segja það í þessari umræðu, það má ekki láta það ósagt, og það er af íslensku krónunni, þessari örmynt sem hefur misst 99,5% af verðgildi sínu síðan hún var sett á fót fyrir 100 árum. Þetta er örgjaldmiðill sem heldur bara áfram að missa verðgildi sitt ár frá ári, okkur öllum til skaða. Við skulum kannski segja flestum en ekki öllum því að það eru jú einhverjir sem því miður hagnast á því ástandi, hagnast á því að halda þessum örgjaldmiðli úti í þessu landi.

Þó að ég hafi fulla samúð með eðli og markmiði þess sem lagt er fram hér þá er það því miður bara plástur á beinbrot eða að pissa í skóinn sinn. Það verður að taka á vandamálinu sem er gjaldmiðillinn. Það er auðvitað ákaflega erfitt að taka á þessu vandamáli þegar það er alþýða þessa lands sem tapar en stórir og sterkir aðilar sem hagnast á þessu ástandi. Það eru þeir sem skulda, þeir sem minnst mega sín, sem tapa og blæða ár frá ári fyrir þennan örgjaldmiðil okkar.

Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson nefndi það hér áðan að einhverjir legðu það til að ganga í Evrópusambandið og það væri svar við þessu. Og það er bara rétt, það er svarið við þessu. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að myntkarfan yrði aldrei jafn örugg leið til þess að losna út úr þessu ástandi og það að taka einfaldlega upp annan gjaldmiðil, einfaldlega vegna þess að það væri elíta þessa lands sem myndi stjórna þessari myntkörfu hvort eð er. Það væri fólkið sem hv. þingmaður er stöðugt að deila á og eiga við, það væru þeir sem græða á þessu ástandi sem myndu stjórna þeirri körfu og myndu haga henni eins og þeim best hentaði. Ef við förum hins vegar út úr þessu kerfi og göngum inn í kerfi sem flestar nágrannaþjóðir okkar og vinaþjóðir hafa tekið upp, tökum upp sterkan stöðugan gjaldmiðil og verðum aðilar að Seðlabanka Evrópu með Seðlabanka Íslands sem eins konar samstarfsaðila við bræðraþjóðir okkar þar, þá hverfur þetta vandamál eins og dögg fyrir sólu. Ég lofa ykkur því, það hverfur eins og dögg fyrir sólu. Þess vegna hvet ég hv. þingmenn til að taka undir með okkur sem viljum losna út úr þessu kerfi, að við eigum að endurnýja aðildarumsóknina að Evrópusambandinu, klára hana og taka evru upp sem lögeyri á Íslandi.