154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:51]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Bjarna Garðarssyni kærlega fyrir þetta innlegg. Ég veit að við erum sammála um að ábyrg efnahagsstjórn er mikilvæg. Kannski erum við hins vegar ósammála um það hvort efnahagsstjórn hér á Íslandi hafi verið góð undanfarin ár eða ekki. Ég er ekki alveg viss um að svo sé. Og ég held að það þyrfti mjög mikið að ganga á í Evrópu og á evrusvæðinu til að stýrivextir Seðlabanka Evrópu færu upp í sömu hæðir og stýrivextir íslenska seðlabankans. Við megum heldur ekki gleyma því að Evrópa er ekki einsleitt svæði, alls ekki, eins og hefur verið bent á hér í ágætum umræðum. Og innan landa, meira að segja innan Evrópusambandsins, getum við verið með alveg gjörólík hagkerfi. Ég nefni bara Ítalíu sem dæmi þar sem við erum með, í norðurhluta landsins, eitthvert ríkasta svæði jarðarinnar og öflugasta hagkerfið en með mjög fátækt svæði í suðurhluta landsins. Þetta eru bara alls konar hagsmunir sem þarf að taka tillit til (Forseti hringir.) og ég held að við eigum ágætlega heima á því svæði og þyrftum ekki að bera skarðan hlut frá borði þar.