154. löggjafarþing — 69. fundur,  8. feb. 2024.

vextir og verðtrygging o.fl.

109. mál
[13:58]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, bara algerlega; þetta er gildra sem við erum sett í sem erum fædd á þessu landi og þurfum að kaupa okkur húsnæði. Ég tek undir með hv. flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Ásthildi Lóu Þórsdóttur, um það, algerlega. Þetta er ákveðin leið til að tryggja að peningar glati ekki verðgildi sínu, þ.e. þeir peningar sem fólk er að taka að láni og þeir peningar sem fjármagnseigendur setja inn í bankakerfið til að koma þeim í vinnu, og þess vegna eru þetta náttúrlega að einhverju leyti vextir. Þetta er viðbót við vextina. Þetta hefur alveg sömu áhrif. Ef verðtrygging er 5% og vextir 5% þá má segja að það séu 10% vextir, þannig virkar þetta í reyndinni. En við þurfum að reyna að losna út úr þessu vandamáli og ég hef mína skoðun á því hvernig við gerum það og hv. flutningsmaður hefur sína skoðun og ég held við verðum ekki sammála um það.