131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[13:51]

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Barátta heyrnarlausra fyrir rétti sínum hefur vakið athygli og árangurinn er ekki síður eftirtektarverður. Það má glöggt sjá í skýrslu sem menntamálaráðuneytið gaf út í mars 2000 um réttarstöðu heyrnarlausra. Þar kemur fram að réttarstaða heyrnarlausra er svipuð hér á landi og á öðrum Norðurlöndum hvað varðar rétt til túlkaþjónustu í samskiptum við hið opinbera í heilbrigðiskerfinu, gagnvart dómstólum og í menntakerfinu.

Samkvæmt skýrslunni vantar hins vegar fólk til að sinna túlkaþjónustu. En það hefur breyst. Á þessu og næsta ári er áætlað að 16 táknmálstúlkar útskrifist frá Háskóla Íslands og um 30 manns hófu nám í greininni í haust.

Margt hefur áunnist á síðustu árum í málefnum heyrnarlausra. Þannig voru lög um Heyrnar- og talmeinastöðina endurskoðuð á síðasta kjörtímabili. Stofnunin hefur verið styrkt verulega og henni hafa verið fengin aukin verkefni. Kvartanir um biðlista eftir heyrnartækjum heyra nú sögunni til. Á síðasta ári var sett ný reglugerð sem bætir hag þeirra sem þurfa að nota heyrnartæki, greiðslur voru hækkaður og nýr réttur myndaður, t.d. gagnvart þeim sem fara í kuðungsígræðslu. Þingsályktun um textun í sjónvarpi var samþykkt á árinu 2001 og aukið fjármagn sett í verkefnið.

Tvö framfaramál standa þó upp úr á síðustu árum, virðulegi forseti. Annars vegar þau þáttaskil á árinu 1999 þegar heyrnarlausir sem falla undir táknmálsumhverfið fengu viðurkenningu á að þeir voru metnir til 75% örorku í stað 50% áður. Þessi réttarbót hefur verið heyrnarlausum mikils virði og skapað þeim meira sjálfstæði og betri lífsgæði en þeir áttu áður kost á. Hins vegar er sú bylting er viðurkenndur var réttur grunn- og framhaldsskólanema til að öðlast menntun á táknmáli heyrnarlausra og fá aðstoð túlka í námi. Krafa heyrnarlausra nú um fjárhagslegan stuðning er rökrétt framhald af þessum réttarbótum. Við hljótum að fagna yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra í dag sem lýsir skilningi á þörfum þessa fólks. Ég vil nota tækifærið og óska samfélagi heyrnarlausra til hamingju með árangurinn.