131. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2004.

Túlkun fyrir heyrnarlausa.

[14:05]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að mér þykir vænt um að heyra hin hlýju orð, bæði frá málshefjanda og öðrum þingmönnum. Þetta er greinilega málefni sem skiptir alla máli. Þetta er stór dagur og stórt skref í réttindabaráttu heyrnarlausra og það er greinilegt að þetta mál er flestum og öllum kært hér inni, meðan aðrir sáu sér ekki annars úrkosta en að drífa sig úr salnum fyrst ekki voru not fyrir fúkyrðaflauminn sem menn höfðu greinilega búið sig undir.

Ég vil undirstrika að það var ríkisstjórnin öll sem stóð að þessu. Það getur vel verið að við höfum tekið langan tíma í að skoða málið en það hafa einnig komið mörg og merkileg skref út úr niðurstöðum þeirrar nefndar sem skoðaði málið og hefur skilað af sér. Nánari skoðun er ekki alltaf neikvæð og margt gott hefur skilað sér inn í kerfið sem slíkt.

Ég vil undirstrika það sem ég sagði áðan, að þetta er ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Hún samþykkti tillögu mína þannig að það er ríkisstjórnin sem stendur að þessu með mér og auðvitað þinginu. Ég vil ítreka að við áttum þennan fund áðan. Við erum þegar byrjuð að vinna að því að leggja grófar línur um hvernig við komum til með að skipuleggja þetta, haga reglugerðinni og orðalagi í henni. Sú vinna er hafin með hinum ágætu forsvarsmönnum Félags heyrnarlausra og lögmanni þess félags. Það er búið að tryggja táknmálstúlkun fyrir heyrnarlausa í daglegu lífi með varanlegum hætti.