132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Starfsumhverfi dagmæðra.

96. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Mikilvægt er að fá fram afstöðu hæstv. félagsmálaráðherra til þess hvernig hægt er að bæta starfsumhverfi dagforeldra sem aðallega eru dagmæður en starf þeirra er afar þýðingarmikið til að bæta stöðu ungbarnafjölskyldna. Bættri stöðu dagmæðra fylgir betri þjónusta við ungbarnafjölskyldur en starfi þeirra fylgir mikil ábyrgð og er afar mikilvægt meðan við höfum ekki þjónustu almennra leikskóla fyrir börn eftir að fæðingarorlofi lýkur að fullu og þar til leikskóli tekur við sem yfirleitt er við 18 mánaða aldur.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því, sem er auðvitað nátengt þessari fyrirspurn, hvort hann sé reiðubúinn að taka upp samvinnu við sveitarfélögin um hvernig hið opinbera geti bætt stöðu ungbarnafjölskyldna eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskóli tekur við. Þar er um að ræða einmitt það sem þessi fyrirspurn fjallar um sem er bættur stuðningur við dagmæður og brýnt er auðvitað að stefna að lengra fæðingarorlofi.

Nýverið var starfsumhverfi dagmæðra í skattamálum bætt en frádráttur vegna kostnaðar við daggæslu hefur verið óbreyttur í krónutölu um margra ára skeið og það er fyrst nýlega eftir þrýsting frá dagmæðrum að því hefur verið breytt. Brotalöm í starfsumhverfi dagmæðra sem hart bitnar á fjölda foreldra er m.a. mismunur í niðurgreiðslum hjá sveitarfélögum sem getur verið allt frá 10 þús. kr. fyrir hvert barn og upp í 40 þús. kr. Í Hafnarfirði er niðurgreiðslan t.d. 20 þús. kr. og í Reykjavík 15.500 kr.

Skoðun mín er sú að ákveðið viðmið sé eðlilegt í lögum og reglum til að samræmis sé gætt í niðurgreiðslum hjá einstaka sveitarfélögum og ungbarnafjölskyldum sé ekki mismunað eftir búsetu. Slíka mismunun, sem kemur hart niður á fjölda ungbarnafjölskyldna, á ekki að líða og hlýtur ákveðin jafnræðisregla að þurfa að gilda í því sambandi, t.d. þannig að niðurgreiðslur fari ekki niður fyrir ákveðin sanngirnismörk. Ég spyr ráðherra hvort hann hafi skoðað það mál og hvort von sé á breytingum á reglugerð eða lögum sem bætir stöðu dagmæðra og ungbarnafjölskyldna sem njóta þjónustu þeirra.

Auk samræmingar í niðurgreiðslum spyr ég ráðherra hvort hann telji eðlilegt að mismunur líðist eins og nú er þegar niðurgreiðslur eru mismunandi eftir að barnið nær 18 mánaða aldri eftir því hvort barn er í leikskóla eða hjá dagforeldri. Þannig eykst niðurgreiðsla til foreldra leikskólabarna og eins í einkareknum leikskólum eftir að barnið nær 18 mánaða aldri en niðurgreiðsla eykst að sama skapi ekki til ungbarnafjölskyldna sem hafa börn sín hjá dagmæðrum eftir 18 mánaða aldur. Í kerfinu nú er því mismunur í niðurgreiðslum eftir því hvar þjónustan er veitt og líka í hvaða sveitarfélögum. Ég spyr ráðherra hvort til greina komi að heimila aðeins fjögur börn hjá dagmæðrum í stað fimm án þess að draga úr niðurgreiðslum þannig að það bitni ekki á foreldrum eða dagmæðrum.